8 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Mikilvægara að ná tökum á faraldrinum

Skyldulesning

Alma D. Möller landlæknir bendir á að það liggi ekki …

Alma D. Möller landlæknir bendir á að það liggi ekki fyrir með vissu að lokun líkamsræktarstöðva hafi neikvæð áhrif á lýðheilsu.

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það er auðvitað slæmt að þurfa að loka þessari starfsemi en í stóru myndinni er mikilvægara að mínu mati að ná tökum á faraldrinum,“ segir Alma D. Möller landlæknir um heilsu- og líkamsræktarstöðvar sem hafa samtals verið lokaðar í um fjóra mánuði vegna Covid-19. Þær verða lokaðar fram yfir áramót, í það minnsta.

„Við vitum að fólk getur hreyft sig með öðrum hætti heima og úti. Langbesta leiðin til að koma lífinu í eðlilegt horf svo við getum gert það sem við viljum venjulega er auðvitað að halda faraldrinum niðri.“

32% hreyfðu sig meira

Alma bendir á að það liggi ekki fyrir með vissu að lokun líkamsræktarstöðva hafi neikvæð áhrif á lýðheilsu. Þannig hafi t.d. stór rannsókn sem var gerð á hegðun fólks í átján löndum frá marsmánuði til maímánaðar í ár leitt í ljós að 44% 14.000 þátttakenda hreyfðu sig jafn mikið og fyrir faraldur, 32% hreyfðu sig meira og 24% hreyfðu sig minna. Þeir sem hreyfðu sig daglega leið best en þeir sem hreyfðu sig minna en áður leið verst.

„Auðvitað getur það verið að fólk sem er vant að hreyfa sig gríðarlega mikið í ræktinni farnist verr,“ segir Alma sem hvetur fólk til að hreyfa sig þrátt fyrir að það komist ekki í líkamsrækt.

„Hvort heldur er úti eða heima. Það er talað um ýmist talað um hálftíma daglega fyrir fullorðna eða 150 mínútur í viku. Þá er mælt með því að fullorðnir hreyfi sig rösklega þannig að hjartslátturinn verði ör tvisvar í viku. Auðvitað er það óumdeilt að gildi hreyfingar fyrir heilsu eru mikið. Það liggur bara ekki fyrir hver langtímaáhrif faraldursins á hreyfingu eru en það virðast ekki vera mjög mikil áhrif,“ segir Alma.

Lýðheilsa alltaf í öndvegi

Sú ákvörðun að loka heilsu-/líkamsræktarstöðvum um nokkurra mánaða skeið samtals hlýtur að hafa einhverjar neikvæðar afleiðingar fyrir heilsu þjóðarinnar?  

„Ég hef auðvitað áhyggjur af því að líkamsræktarstöðvar séu lokaðar en þetta er samkvæmt áhættumati varðandi smithættu. Það áhættumat er mjög samhljóma á milli landa, það er ákveðin áhætta í líkamsræktarstöðvum, bæði á sameiginlegum snertiflötum og svo andar fólk ótt og títt og við vitum að veiran getur dreifst með andardrætti.“

Hefur, að þínu mati, verið hugað nægilega vel að öðrum þáttum sem tengjast heilsu en bara áhættunni á kórónuveirusmitum þegar gripið er til aðgerða til að koma í veg fyrir útbreiðslu smita?

„Það er auðvitað reynt eins og hægt er og þekkingunni er að fleygja fram. Eftir því sem við höfum fengið meiri þekkingu þá er auðvitað hægt að miða aðgerðirnar út frá henni. Þegar kemur að lýðheilsu er hún alltaf í öndvegi. Það hefði auðvitað gríðarleg áhrif á lýðheilsu ef veiran fengi bara að ganga þannig að það vegur auðvitað þyngst í að ná niður faraldrinum,“ segir Alma.

Víðtæk kortlagning á líðan

Mikil vinna er nú í gangi við kortlagningu lýðheilsu og geðheilsu þjóðarinnar í faraldrinum. Embætti landlæknis vaktar t.a.m. einu sinni í mánuði heilsu og líðan með spurningalista. Þá hefur Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild HÍ, leitt rannsóknina „Líðan þjóðar á tím­um Covid-19“ sem bæði landlæknir og sóttvarnalæknir taka þátt í. Fyrstu niðurstöður hennar voru kynntar í dag. Þá vaktar fyrirtækið Rannsóknir og greining líðan ungmenna.

„Landlæknisembættið vaktar veitingu heilbrigðisþjónustu. Hvað er verið að gera og hvað er ekki verið að gera. Síðan er núna verið að stofna hóp að tillögu landlæknis um að vakta lýðheilsu mjög vítt vegna þess að embættið er t.d. ekki með innsýn í afleiðingar ofbeldis, umfang atvinnuleysis og tekjumissis, áhrif mótvægisaðgerða og fleira,“ segir Alma.

Hópurinn hefur bráðum störf og hefur Alma lagt til nafnið Lýðheilsuvaktin. 

„Síðan lagði ég líka til að það yrði stofnaður sé hópur til að fylgjast með andlegri líðan og geðheilbrigðisþjónustu,“ segir Alma.

Fer langoftast yfir tillögur Þórólfs

Hvað með geðheilsu, er útlit fyrir að það taki okkur langan tíma að vinna á þeirri vanlíðan sem hefur skapast hjá fólki vegna faraldursins? 

„Það er líka óvíst. Við sjáum að yngra fólkinu líður verr en því eldra. Þess vegna er mikilvægt að taka upp þessa vöktun sem ég var að tala um og setja upp hóp sem er bæði þverfræðilegur og þverstofnanalegur vegna þess að menn sjá hlutina með mismunandi augum,“ segir Alma.

Ákveðnar vísbendingar eru uppi um að geðheilsu hafi hrakað í faraldrinum en Alma segir þó að ekki hafi verið meira um innlagnir á sjúkrahús vegna þess.

„Allar þjóðir eru mjög vakandi fyrir geðheilbrigði og heilbrigðisráðherra ákvað að setja inn 540 milljónir í geðheilbrigðismál vegna Covid og sama upphæð er tilgreind í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta árs. Fjármagnið dreifist út um allt land og fer í heilsugæsluna, í þessi geðheilsuteymi og mönnun almennt. Þá er líka verið að fjölga sálfræðingum í heilsugæslu þannig að það er bæði verið að fylgjast með og bregðast við. Við erum auðvitað  að gera heilmikið og svo eru aðrar þjóðir líka að rannsaka þetta. Auðvitað verður mjög fróðlegt þegar lengra er komið að bera saman lýðheilsu og geðheilsu miðað við hvernig faraldurinn hefur verið og aðgerðirnar.“

Veitir þú sóttvarnalækni þitt álit á þeim tillögum að aðgerðum sem hann sendir ráðherra?  

„Það eru auðvitað heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir sem taka þessar ákvarðanir. Sóttvarnalæknir biður mig langoftast að fara yfir þær,“ segir Alma að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir