Mikilvægt að valda fiskinum sem minnstri streitu

0
93

Eva Dögg Jóhannesdóttir segir áhugaverðar tilraunir í gangi þar sem leysigeisli er notaður til að drepa lýs sem hafa fest sig á laxa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef eldisfiskur er stressaður aukast líkurnar á sýkingum. Það sama gildir um hvers kyns meðhöndlun á fiskinum og eru hreistur hans og slímhúð viðkvæm fyrir hnjaski. Streita í aðdraganda slátrunar flýtir fyrir dauðastirðnun og rýrir gæði.

Í síðasta blaði 200 mílna segir Eva Dögg Jóhannesdóttir, sjávarlíffræðingur og gæða- og umhverfisstjóri GeoSalmo, að í greininni hafi orðið vitundarvakning hvað snertir velferð fiskanna: „Sú var tíð að fólk leit svo á að fiskur væri bara fiskur, en nú er það að breytast og t.d. rík áhersla lögð á það að valda eldisfiskum sem minnstri streitu, og gæta vel að velferð fisksins í gegnum allt lífsferlið.“

Hún segir vaxandi áherslu á dýravelferð haldast í hendur við hagsmuni eldisfyrirtækjanna og er t.d. streittur fiskur viðkvæmari fyrir sýkingum sem getur þýtt að meiri afföll verði í eldinu eða að gæði lokavörunnar verði lakari.

Eva Dögg segir vitundarvakningu hafa orðið í tengslum við velferð eldisfiska. Ljósmynd/Aðsend

„Það er margt sem getur valdið fiskum streitu. Þannig getur meðhöndlun, hávaði og snöggar breytingar á umhverfi valdið streitu. Við höfum líka lært að það skiptir miklu máli hvernig fiskur er tekinn upp úr kvíum og kerjum: er venjan sú að þrengja að fiskinum s.s. þegar kvíar eru tæmdar, en ef það er þrengt of hratt að honum þá veldur það mikilli streitu.“

Þá er brýnt að lágmarka hvers kyns meðhöndlun á fiskinum því bæði er hún streituvaldandi og eins getur nudd og núningur skaddað hreistur og slímhúð fisksins: „Þá hafa örverur greiðari aðgang að fiskinum og geta valdið sýkingu,“ útskýrir Eva og bætir við að hún fylgist spennt með framförum í myndavélatækni sem gerir kleift að vakta ástand fiska í rauntíma, og nota myndgreiningu til að koma augu á möguleg vandamál sem kallað gætu á inngrip, t.d. vegna laxalúsar. „Er meira að segja verið að gera tilraunir með tækni sem byggist á að samnýta myndavélagreiningu og leysigeisla sem drepur lúsina.“

Lesa má viðtalið í heild sinni í síðasta blaði 200 mílna.