4 C
Grindavik
6. maí, 2021

Mikla móðir 1: Kvenræði

Skyldulesning

Erich Neumann (1905-1960) var þýsk-ísraelskur heimspekingur, læknir og greiningarsálfræðingur (analytische psychologe). Hann fæddist í Berlín árið 1905, nam heimspeki við háskólann í Erlangen-Nuremberg og lauk því námi með doktorsgráðu árið 1927. Erich hélt áfram námi í læknisfræði við háskólann í Berlín. Því námi lauk hann árið 1933. Ári síðar hvarf Erich frá Þýskalandi ásamt fjölskyldunni og fluttist til Ísrael. Banamein hans var krabbamein.

Erich snéri öðru hverju til Evrópu, Sviss, þar sem hann starfaði með Carl Gustav Jung (1875-1961), upphafsmanni greiningarsálfræðinnar (analytische psychologie). Erich hefur skrifað nokkrar bækur eins og t.d. „Sögu uppruna vitundarinnar“ (Ursprungsgeschichte des Bewusstseins – The Origins and History of Consciousness), sem kom út árið 1949. Lærifaðirinn skrifað lofsamlegan inngang að verkinu. Sjö árum síðar gaf Erich út „Miklu móður. Arfmynd (fornmynd) hins mikilúðlega í fari konunnar“ (Die grosse Mutter. Der Archetyp des Grossen Weiblichen – The Great Mother).

Erich lagði drjúgan skerf af mörkum til skilnings á tilurð vitundarinnar. Hann – eins og lærifaðirinn – lagði sérstaka áherslu á andlega arfleið mannsins eins og hún birtist í goðsögnum, arfsögnum, ævintýrum og list. Það gerði reyndar einnig upphafsmaður sálgreiningarinnar, hinn austurríski Sigmund Freud (1856-1939). Erich sækir fróðleik og innblástur til beggja nefndra snillinga, en hann og fleiri stóðu í sérstakri þakkarskuld við svissneska lög- og fjölfræðinginn, Johann Jakob Bahofen (1815-1887), sem með bók sinni, „Móðurréttinum. Athugun á kvenræði fornaldar samkvæmt trúarbrögðum hennar og réttarreglum“ (Das Mutterrecht: eine Untersuchung über die Gynaikokratie der alten Welt nach ihrer religiösen und rechtlichen Natur – Mother Right: A Study of the Religious and Juridical Aspects of Gyneocracy in the Ancient World), sem kom út árið 1961. Erich styðst aukin heldur við þrjú önnur meginrit, sem eru: 1) „Mæðurnar: Kvenveldiskenningin um félagslegan uppruna“ (The Mothers. The Matriarchal Theory of Social Origins), eftir fransk-skoska lækninn og mannfræðinginn, Robert Stephen Briffault (1874-1948), gefin út árið 1927. 2) „Hugarheimur frumstæðra þjóða“ (Les Fonctions mentales dans les sociétés inférieures) eftir franska mann- og þjóðfræðinginn, Lucien Lévy-Bruhl (1857-1939) – og mörg seinni rit hans um efnið. 3) „Heimspeki táknanna“ (Philosophie der symbolischen Formen), sem út kom í þrem bindum á árabilinu 1923-1929, eftir þýska heimspekinginn, Ernst Alfred Cassier (1874-1945).

Og hver er svo þessi hugskotsmóðir, sem fylgt hefur mannkyninu frá örófi alda – alla vega u.þ.b. fjórtán þúsund ár? En áður en lengra er haldið verður til skilningsauka að minnast á frumhvolfið eða frumbauginn (uroboros). Í upphafi mynduðu himinn og jörð frumhvolfið, hina fullkomnu (sam)einingu og óþrotleika. Snákurinn eða drekinn, sem bítur í hala eða sporð, er fornt tákn upphafsins. Karl og kona voru í þessum hugarheimi samþætt, samkyns, einkynjuð.

Indversk arfsögn er á þessa leið (Upanishad): „Við upphaf veraldarinnar var Sálin (Atman) alein í mynd veru. Þegar hún svipaðist um, bar ekkert fyrir augu, nema hana sjálfa. Fyrst varð henni að orði: „Ég sjálf.“ … Í rauninni var hún eins mikil um sig og kona og karl, samslungin. Veran skipti sér í tvennt. Þannig urðu til eiginkarl (pati) og eiginkona (patni).“ Andstæður höfðu skapast.

Johann Jakob segir: „Móðirin er til, áður en sonurinn kemur til sögunnar. Móðirin hefur forgangsrétt, hin karlkennda sköpun kemur síðar til sögu sem aukafyrirbæri. Konan er í upphafi, karlinn „verður til.“ Jörðin er gundvallarviðmiðun, frumefni hins móðurlega.“

Hann heldur áfram: „Því er það, að í ríki náttúrunnar er karlreglan annars flokks, undirgefin hinni kvenlegu. Í þessu felst frumgerð og réttlæting kvenræðis [og] hér hafa um ómunatíð legið rætur hugtaksins um ódauðlega móður, sem binst dauðlegum föður böndum. Um alla eilífð er hún ein og söm, en áar karlsins fjölga sér í það óendalega. Hin Mikla móðir, ævinlega söm við sig, eðlar sig sífellt með nýjum körlum.“

Í upphafinu ber sonurinn vitni móðurmætti og frjósemi. Því er Mikla móðir tvíkynja eða beggjakynja, hið karllega er samþætt því kvenlega. Móðirin er dýrkuð, blótuð til frjósemi. Hún er táknuð sem haf, stöðuvatn eða á. Mannsandinn smíðar í hugskoti sínu gyðjur „í móðurstað.“

Erich segir um þetta: „Frumbaugssvipmótið leynir sér ekki, sérhverju sinni sem Mikla móðir er dýrkuð sem beggjakynsvera, t.d. skeggjuðu gyðjurnar á Kýpur og í Karþagó [Carthage, fyrrum höfuðborg púnverska heimsveldisins, nú í Túnis]. Konurnar með skeggið eða reðinn, afhjúpa frumbaugssvipinn í ljósi samþættingar hins kven- og karllega. Síðar mun þessi einkynjungur (hybrid) víkja fyrir skýrt aðgreindum kynverum, því blönduð og tvíræð gerð hans er tákn árskeiðs [í sögu vitundar og hugarheims mannkyns], sem elur af sér andstæður í fyllingu tímans.“

Skeggjaða gyðjan á Kýpur er sjálf Afródíta (Aphrodite), Freyja grískrar menningar. Hún er Venus („Venus barbata,“ skeggjaða, eða „Venus armata,“ vopnaða) meðal Rómverja. Gyðjan í Karþagó, sem Erich minnist á, er trúlega Tanit (Tanith, Tinnit), sem er eldforn gyðja Föníkumanna og annarra (í einni eða annarri mynd) fornþjóða við Miðjarðarhaf.

„Mikla móðir var dýrkuð frá Egyptalandi til Indlands, frá Grikklandi til Litlu-Asíu [og] til myrkviða Afríku. [Hún var] alls staðar álitin gyðja veiða og stríðs. Blótsiðir hennar voru blóði drifnir, blótin hömlulaus. Allt er þetta samþætt í eðli sínu. „Blóðlagið,“ djúpt í iðrum hinnar miklu Jarðarmóður skýrir enn frekar, hvers vegna piltarnir, sem hún leggur ást sína á, ættu að óttast geldingu.“ (Erich Neumann)


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir