10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Miklar aflaheimildir fylgja kaupum á Vísi

Skyldulesning

Töluverðar aflaheimildir í þorski fylgja kaupunum á Vísi og mun samstæða Síldarvinnslunnar vera komin með 9,6% hlut í tegundinni.

Vísir hf. er meðal stærstu botnsjávarútgerðum landsins og fylgja því töluverðar aflaheimildir kaupum Síldarvinnslunnar hf. á útgerðarfyrirtækinu, alls 14.744 tonn miðað úthlutun vegna yfirstandandi fiskveiðiárs.

Verðmæti aflaheimildanna nemur rúmlega 4,4 milljörðum króna ef marka má meðalverð á skráðum aflamarksviðskiptum frá áramótum, að frátöldum viðskiptum þar sem ekkert verð er. Þesi upphæð er þó líklega töluvert lægri en raunverulegt verðmæti þar sem umrætt meðalverð er oft vísun í leiguverð.

Vísir hf. er með fjórðu mestu aflaheimildirnar í þorski á landinu eða 5,4% hlutdeild í heildaraflamarki í tegundinni. Það er því eðlilegt að af þeim heimildum sem fylgja Vísi eru langmestar í þorski eða 9.469 tonn og er verðmæti þeirra 3,5 milljarðar króna samkvæmt meðalverði. Þá fylgir kaupunum einnig rúmlega 6% aflahlutdeild í ýsu að verðmæti rúmlega 700 milljónir króna. Með kaupunum mun samstæða Síldarvinnslunnar því vera komin með 9,6% af úthlutuðum þorskheimildum eða 16.887 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári og 15% af heimildum í ýsu, alls 4.922 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.

9,6% hlut í þorski

Tilkynnt var um kaupin síðastliðinn sunnudag og var sagt frá því að kaupverðið næmi 20 milljörðum króna og að 30% af greiðslunni væru með reiðufé en 70% með hlutafé í Síldarvinnslunni. Jafnframt fylgir Vísi 11 milljarða króna skuld. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki hluthafa Síldarvinnslunnar og Samkeppniseftirlitsins.

Í tilkynningunni var vakin athygli á því að samstæða Síldarvinnslunnar kunni með kaupunum að fara yfir efri eignamörk í lögum sem kveða á um að ekki sé heimilt að fara með yfir 12% hlutdeild í úthlutuðum þorskígildum, fyrirtækið hafi þó sex mánuði til að losa sig við veiðiheimildir. Til þess þarf ekki að koma ef úthlutun veiðiheimilda verður til þess að hlutdeildin lækki sérstaklega með tilliti til uppsjávartegunda, en miklar sveiflur geta verið í þeim tegundum.

Auk eigin heimilda teljast til heimildia Síldarvinnslunnar heimildir sem eru skráðar á dótturfélagið Berg-Huginn í Vestmannaeyjum. Með kaupunum á Vísi gæti hlutdeild samstæðu Síldarvinnslunnar í aflaheimildum í þorski náð 9,6%, aðeins samstæða Samherja er með meiri heildir í þorski.

Hátæknivinnsla

Síldarvinnslan er hins vegar ekki einungis að greiða fyrir aflaheimildir heldur fylgir kaupunum einnig hátæknivædd vinnsla í Grindavík. Vísir hefur frá árinu 2006 verið í nánu vöruþróunarsamstarfi við Marel og hefur meðal annars verið komið upp vatnsskurðarvélum, sjálfvirkum pökkunar- og samvalsróbótum sem og röntgenbúnaði og miðlægum hugbúnaði sem tengir öll tæki saman og veitir heildrænni stjórn á framleiðslunni. Fullyrti Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel, í viðtali um vinnsluna árið 2020 að um væri að ræða eina fullkomnustu fiskvinnslu í heimi.

Tekjur Vísis voru árið 2020 voru 9,3 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi og rekstrarhagnaður tæpur milljarður króna, á gengi dagsins í dag. Hagnaður ársins 2020 nam 363 milljónum.

Sex skip

Alls fylgja kaupunum sex skip Vísis, þar á meðal línuskipið Páll Jónsson GK-7 sem kom til landsins 21. janúar 2020. Skipið, sem er 45 metrar að lengd og 10,5 metrar að breidd, var fyrsta skipið af þessari stærð sem Vísir fékk í um 50 ára sögu útgerðarinnar.

Meðal skipanna er einnig línubáturinn Fjölnir GK-157 sem smíðaður var 1968, ásamt skuttogaranum Jóhönnu Gísladóttur sem smíðaður var 1998 og krókaaflamarksbátunum Sævík GK-757 og Daðey GK-777.

Uppfært 11:59. Upphaflega stóð var fjallað um ársreikning Vísis og talað um upphæðir í evrum sem krónur. Upphæðirnar hafa nú verið umreiknaðar í krónur á núverandi gengi og fréttin leiðrétt með tilliti til þess.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir