2.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Milljarðaránið sem skók Þýskaland – Svona báru ræningjarnir sig að við að stela ómetanlegum skartgripum

Skyldulesning

Nýlega hófust réttarhöld yfir sex mönnum sem eru ákærðir fyrir að hafa staðið á bak við ránið í Grünes Gewölbe safninu í Dresden í Þýskalandi þann 25. nóvember 2019. Þá brutust sex grímuklæddir menn inn á safnið og á nokkrum mínútum tókst þeim að komast yfir nokkra af verðmætustu og sögulegustu skartgripi heimsins. Ránið var gríðarlega vel skipulagt og enn er mörgum spurningum ósvarað um það þrátt fyrir að lögreglan telji sig hafa haft hendur í hári ræningjanna.

Grünes Gewölbe er eitt af elstu söfnunum í Evrópu. Þar eru margir verðmætir munir geymdir, meðal annars 4.300 demantar, og þýfið sem ræningjarnir höfðu á brott með sér er metið á 113 milljónir evra. Marion Ackermann, forstjóri listaverkasafns Dresden, segir að sögulegt og menningarlegt verðmæti munanna sé miklu meira en fjárhagslegt verðmæti þeirra. CNN skýrir frá þessu.

Meðal þess sem ræningjarnir stálu var hattaspenna frá 1780 með 15 stórum og rúmlega 100 litlum demöntum og sverð og slíður með 800 demöntum.

Vel skipulagt

Ránið var vel skipulagt að sögn yfirvalda. Fjórum mánuðum áður sótti einn hinna ákærðu dökkbláa Audi S6 bifreið til Magdeburg, sem er um 250 km norðvestan við Dresden. Bíllinn var síðan notaður á flótta ræningjanna.

Þungvopnaðir lögreglumenn handtóku ræningjana löngu síðar. Mynd:EPA

Nokkrum dögum fyrir ránið voru rimlar fyrir glugganum, sem ræningjarnir fóru inn um, fjarlægðir. Ræningjarnir festu þá síðan aftur með lími til að síður yrði tekið eftir þessu. Þessi gluggi var utan sjónsviðs eftirlitsmyndavéla. Hreyfiskynjari inni í byggingunni hefði með réttu átt að gera vart við mannaferðir en gerði ekki þessa nótt. Fram hefur komið að hann hafi farið í gang daginn áður en ekki hafi tekist að endurstilla hann fyrir nóttina.

Atburðarásin

Klukkan 04.55 kviknaði eldur í tengikassa rafveitunnar nærri Grünes Gewölbe. Eldurinn varð til þess að rafmagn fór af á svæðinu.

Klukkan 04.57 sýna upptökur eftirlitsmyndavéla að tveir menn fóru inn í safnið. Annar þeirra notaði öxi til að brjóta gler í sýningarkassa.

Klukkan 04.59 barst lögreglunni tilkynning um yfirstandandi innbrot.

Klukkan 05.04 var fyrsti lögreglubílinn sendur á vettvang og fljótlega eftir það 16 til viðbótar til leitar að ræningjunum.

Klukkan 05.05 barst lögreglunni tilkynning um grunsamlegan bíl.

Klukkan 05.10 var tilkynnt um eld í neðanjarðarbílastæði við Kötzschenbroder Strasse.

Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýna að ræningjarnir vissu nákvæmlega hvert þeir ætluðu inni á safninu. Þær sýna einnig að allt tók þetta bara nokkrar mínútur.

Áður en ræningjarnir lögðu á flótta tæmdu þeir úr slökkvitæki inni á safninu til að hylja öll spor eftir sig.

Þeir óku af vettvangi í Audi S6. 13 mínútum eftir að þeir óku á brott fannst bíllinn mannlaus og logandi í neðanjarðarbílastæðinu við Kötzschenbroder Strasse.

Báðir öryggisverðirnir, sem voru á vakt, sáu hvað gerðist í eftirlitsmyndavélunum en gripu ekki inn í atburðarásina. Lögreglan yfirheyrði þá sérstaklega um þetta en Ackermann segir að þeir hafi fylgt starfsreglum. Roy Ramm, sérfræðingur í öryggismálum og fyrrum yfirmaður hjá Scotland Yard, segir að ránið hafi ekki verið gerlegt nema með góðum upplýsingum frá innanbúðarmanni.

Hinir ákærðu tilheyra Remmogenginu sem er eitt voldugasta glæpagengi Þýskalands. Þrír þeirra eru bræður og hinir þrír eru systkinabörn bræðranna.

Þýfið hefur ekki fundist og óttast sérfræðingar að munirnir hafi verið eyðilagðir, það er að segja skipt upp og seldir í minni hlutum eða jafnvel bræddir.

Reiknað er með að réttarhöldin standi fram í október.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir