8 C
Grindavik
27. febrúar, 2021

Minnis­blað Þór­ólfs og næstu að­gerðir ræddar í ríkis­stjórn

Skyldulesning

Gera má ráð fyrir því að minnisblað Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, sem hann skilaði til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í gær verði rætt á ríkisstjórnarfundi sem verður fyrir hádegi í dag.

Núverandi sóttvarnaaðgerðir gilda til og með morgundeginum og ný reglugerð þarf því að taka gildi á fimmtudag.

Ekkert hefur verið gefið upp um það hvað felst í þeim tillögum sem fram koma í minnisblaði Þórólfs en á upplýsingafundi í gær sagði hann að fara þyrfti mjög hægt í allar tilslakanir.

Tíu manna samkomubann er nú í gildi, tveggja metra reglan og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra. Þá er sundlaugum, skemmtistöðum, börum og líkamsræktarstöðvum gert að hafa lokað.

Þessar reglur hafa verið í gildi síðan 18. nóvember. Fyrst giltu þær í tvær vikur en voru framlengdar í síðustu viku um viku til viðbótar.

Tölur yfir nýgreinda síðustu daga gefa til kynna að faraldurinn sé á niðurleið. Flestir þeirra sem hafa greinst hafa verið í sóttkví við greiningu og sagði Þórólfur í gær þróunina ánægjulega. Hins vegar þyrfti að fara varlega því lítið mætti út af bregða til þess að fá uppsveiflu aftur.

Innlendar Fréttir