Kantmaðurinn Hakim Ziyech verður ekki með Chelsea gegn Krasnodar frá Rússlandi í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu annað kvöld vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik liðsins gegn Leeds á laugardagskvöldið.
Ziyech þurfti þá að fara af velli eftir að hann tognaði aftan í læri í miðri sókn þar sem hann átti stóran þátt í jöfnunarmarki Chelsea í leiknum.
Knattspyrnustjórinn Frank Lampard staðfesti í dag að um tognun í læri væri að ræða og því er útlit fyrir að Marokkóbúinn snjalli missi líka af næstu leikjum Lundnúnaliðsins.
Lampard staðfesti jafnframt að Callum Hudson-Odoi væri úr leik vegna samskonar meiðsla en spænski markvörðurinn Kepa Arrizabalaga fengi tækifæri í marki Chelsea á ný. Enska liðið hefur þegar tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.