Missti tvö barnabörn á einu ári: Dóttir hennar vill fá hana í fangelsi – DV

0
132

Tracey Nix, 65 ára gömul kona í Flórída, á yfir höfði sér ákæru vegna dauða barnabarns síns í nóvember í fyrra.

Tracey var að passa hina sjö mánaða Uriel Schock þegar hún fór á rúntinn með hana til að sinna einhverjum erindum.

Þegar hún kom heim gleymdi hún að taka stúlkuna með sér inn og áttaði sig ekki á því fyrr en nokkrum klukkustundum síðar. Þegar að var komið var stúlkan látin í bílstólnum í aftursæti bifreiðarinnar. Heitt var í veðri þennan dag og sól á himni.

Í desember 2021 lést svo eldri bróðir Uriel, hinn sextán mánaða Ezra Schock, þegar hann var í pössun hjá ömmu sinni. Tracey sofnaði í sófanum heima hjá sér en á meðan laumaði Ezra sér út og fór ofan í tjörn við heimili ömmu sinnar þar sem hann drukknaði. Lögregla mat það sem svo að um slys hafi verið að ræða og var hún ekki ákærð.

Kaila Schock, dóttir Tracey og móðir Uriel og Ezra, segir við fréttastofu WFTS að hún vilji sjá móður sína fara í fangelsi vegna þessara tveggja dauðsfalla.

„Ef ég á að vera hlutlæg þá þarf hún að fara í fangelsi. Sem móðir þeirra þá krefst ég þess, ég mun berjast fyrir þau,“ segir Kaila.

Tekið er fram að Kaila og eiginmaður hennar, Drew, hafi enga trú á öðru en að um hörmuleg slys hafi verið að ræða. Þau telja Tracey engu að síður hafa sýnt af sér vítavert gáleysi. „Hvernig gleymirðu lítilli stelpu,“ spyr Drew í samtali við WFTS.

Verjandi Tracey segir að skjólstæðingur sinn sé „góð manneskja“ og gjörsamlega eyðilögð vegna þessa tveggja dauðsfalla. „Hún elskaði barnabörnin sín mjög, mjög mikið,“ segir hann. Tracey, sem er fyrrverandi skólastjóri, gæti beðið 35 ára fangelsisdómur verði hún sakfelld.