0 C
Grindavik
23. nóvember, 2020

„Mitt svar er einfalt: Nei“

Skyldulesning

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef svarað því og ég tel að allt sem var gert í þessu máli standist skoðun og þess vegna, sem ráðherra, fer ég fram á ógildingu. Ég er ekki sammála þessum úrskurði. Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn séu orðnir hræddir við það að standa með sannfæringu sinni, af hverju eru þeir þá í stjórnmálum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra þegar hún var spurð út dómsmál sem hún hefur höfðað. 

„Viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark eða þor til að standa með því sem þau gera? Mitt svar er einfalt: Nei,“ sagði Lilja ennfremur. 

En sem kunnugt er, höfðaði Lilja mál á hendur konu til að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu í maí að ráðherra hefði brotið jafnréttislög með því að ganga fram hjá konunni við ráðningu ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu. 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Alla jafna uni menn svona úrskurði

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Lilju, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, hvort ráðherra teldi að þetta dómsmál snerist um hana sjálfa sem persónu og hvort rétt væri að ráðherra sæti í viðtali [útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni sl. sunnudag] og talaði um nafngreinda og ónafngreinda embættismenn sem ekki gætu varið sig með þeim hætti sem hún varði sig.

„Getur verið að viðbrögðin hafi eitthvað með það að gera hvaða hörku ráðherrann sýnir sjálfur í þessu máli? Alla jafna una menn svona úrskurði,“ sagði Þorbjörg. 

Er ekki sammála þessum úrskurði

Lilja steig þá í pontu og sagðist hafa svarað því og teldi að allt sem hefði verið gert í þessu máli stæðist skoðun og þess vegna, sem ráðherra, færi hún fram á ógildingu.

„Ég er ekki sammála þessum úrskurði. Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn séu orðnir hræddir við það að standa með sannfæringu sinni, af hverju eru þeir þá í stjórnmálum? Er það að beita hörku að fara fram á ógildingu í máli sem maður er ekki sammála? Ég spyr bara: Viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark eða þor til að standa með því sem þau gera? Mitt svar er einfalt: Nei,“ sagði Lilja. 

Innlendar Fréttir