2 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Modern Family-höfundar leiða saman þungavigtarmenn

Skyldulesning


Heiðar Sumarliðason skrifar

Bandaríska sjónvarpsstöðin ABC hefur pantað nýja sjónvarpsþáttaröð frá Chris Lloyd, öðrum höfundi Modern Family. Þættirnir munu fara í loftið næsta haust og eru aðalstjörnurnar ekki af verri endanum, því Alec Baldwin og Kelsey Grammer hafa nú þegar stokkið um borð. Þættirnir hafa ekki enn fengið nafn, en meðhöfundur er Vali Chandrasekaran, sem skrifaði næstum helming Modern Family-þáttanna, en var þó ekki einn af upprunalegu höfundunum.

Nýju þættirnir fjalla um þrjá menn sem voru sambýlingar sem ungir menn, en upp úr vináttunni slitnaði þegar til árekstar kom þeirra á milli. Þeir hittast nú aftur mörgum áratugum síðar og flytja inn saman. Enn hefur ekki verið tilkynnt hver mun loka þríeykinu.

Þættirnir verða teknir upp í stúdíói með mörgum myndavélum í einu (svokallaður multicam-þáttur), líkt og þættir á borð við Friends, Seinfeld og auðvitað Frasier. Slíkir þættir eru æfðir eins og leikrit, svo eru senurnar teknar upp í einni bunu, oftast fyrir framan áhorfendur. 

Hér leiða ýmsir gamlir samstarfsmenn saman hesta sína á ný. Lloyd og Grammer hafa áður starfað saman, en sá fyrrnefndi var einn af handritshöfundum gamanþáttarins Frasier, sem Grammer lék aðalhlutverkið í. Chandrasekaran var svo hluti af höfundateymi 30 Rock, þar sem Baldwin lék Jack Donaghy eftirminnilega. 

Baldwin situr þó ekki auðum höndum á meðan þættirnir eru skrifaðir, en þessa dagana er hann að leika í míníseríunni Dr. Death, sem Peacock-streymisveitan er að framleiða. Síðasta strandhögg Grammers í sjónvarpsbransann var lögfræðidramað Proven Innocent, sem endaði göngu sína sl. vor eftir aðeins 13 þætti. 

Innlendar Fréttir