Móðir Filippu opnar sig: „Við erum auðvitað enn bara í áfalli“ – DV

0
138

Pernille Nielson, móðir hinnar 13 ára gömlu Filippu sem var rænt og haldið fanginni um síðustu helgi, segir að fjölskyldan sé enn að ná áttum eftir áfallið. Danska þjóðin stóð með öndina í hálsinum þegar fréttir af hvarfi Filippu í smábænum Kirkerup komust í fjölmiðla. Hún var að bera út blöð á laugardag þegar hún skilaði sér ekki heim. Sem betur fer hún á lífi á heimili 32 ára karlmanns í Korsør á sunnudag, en sá er grunaður um að hafa rænt henni og beitt hana kynferðislegu ofbeldi.

Extra Bladet ræddi við Pernille og ræddi hún meðal annars um líðan dóttur sinnar eftir þessa þungbæru lífsreynslu. Þá birti hún færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún þakkaði dönsku þjóðinni fyrir aðstoðina í málinu og allar þær góðu kveðjur sem fjölskyldan hefur fengið.

Í viðtalinu segir Pernille að það muni taka tíma að vinna úr áfallinu og Filippa hafi, eðli málsins samkvæmt, ríka þörf til að hafa sína nánustu nálægt sér öllum stundum.

„Það er erfitt að útskýra hvernig mér líður eða Flippu líður. Við erum auðvitað enn bara í áfalli,“ segir hún.

Danska lögreglan fer með rannsókn málsins og samkvæmt frétt Extra Bladet vinnur hún að því að púsla saman atburðarásinni í þessa 27 klukkutíma sem Filippa var í haldi mannsins.

Maðurinn, sem er 32 ára, var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. maí næstkomandi vegna málsins.