Móðir hennar sannfærði heiminn um að hún væri alvarlega veik – Nú óttast vinir fjölskyldunnar að hún ráði ekki við frelsið – DV

0
180

Viðstaddir í réttarsalnum í Missouri í Bandaríkjunum trúðu ekki eigin augum þegar Gypsy Rose Blanchard, þá 23 ára, settist á sakamannabekkinn í réttarsalnum árið 2015. Fjölskylda hennar og vinir þekktu hana ekki öðruvísi en sem veikburða og veika konu. Hún þjáðist af taugahrörnunarsjúkdómnum ALS og hvítblæði og hafði þurft að nota hjólastól allt sitt líf. En nú gekk hún alein og óstudd inn í réttarsalinn og fékk sér sæti.

Gypsy var ákærð fyrir að hafa myrt móður sína, móður sen hafði alla tíð haldið því fram að Gypsy væri með ólæknandi sjúkdóma og væri mjög veik.

Þvingaði dóttur sína til að nota hjólastól Móðir hennar, Dee Dee Blanchard, glímdi við sjúkdóminn Münchausen by proxy en þeir sem við hann glíma eiga til að ljúga til um heilsufar barna sinna og jafnvel framkalla sjúkdómseinkenni. Allt er þetta gert til að hljóta athygli.

Dee Dee hafði fengið mikla samúð vegna veikinda Gypsy og þvingaði hún dóttur sína í margar ónauðsynlegar aðgerðir, rakaði hár hennar af og dældi í hana lyfjum. Um þær var fjallað í fjölmiðlum og Gypsy var boðið í Disney garðinn og góðgerðasamtökin Habitat for Humanity gáfu þeim heilt hús.

Dee Dee neyddi Gypsy til að sitja í hjólastól og þorði stúlkan ekki að óhlýðnast móður sinni. Hana dreymdi þó um eðlilegt líf. Dee Dee hafði haldið því fram að Gypsy væri þroskaskert og hefði í raun þroska á við 7 ára barn. Það var þó fjarri lagi. Árið 2015 var Gypsy ung kona, 23 ára, með fulla greind og komin með alveg nóg af móður sinni.

Upplifði frelsið í fangelsinu Hún kynntist strák á netinu og saman lögðu þau á ráðin um að koma Dee Dee fyrir kattarnef. Kvöld eitt faldi Gypsy sig inn á baðherbergi og hélt fyrir eyrun á meðan kærastinn, Nicholas Godejohn myrti móður hennar.

Eftir að lík Dee Dee fannst á heimili þeirra mæðgna tók það lögregluna ekki langan tíma að átta sig á málinu. Gypsy var í kjölfarið dæmd í 10 ára fangelsi en Nicholas fékk lífstíðardóm.

Hún greindi síðar frá því að í fangelsinu væri hún að upplifa frelsi í fyrsta sinn í lífinu. Hún sæi eftir því sem hún gerði og vonaði að einhvers staðar í eftirlífinu gæti móðir hennar fyrirgefið henni.

Nú gæti Gypsy verið að losna úr fangelsi, en hún á bráðlega rétt á reynslulausn. Vinir fjölskyldu hennar hafa þó áhyggjur.

Hafa áhyggjur af Gypsy Þær Fancy Marelli og Titiania Gisclair, sögðu í samtali við fjölmiðla að þær hafi áhyggjur af Gypsy og óttist að hún muni enda aftur í fangelsi.

„Gypsy er búin að sitja af sér 80 prósent af refsingu sinni. Hún á að sleppa árið 2025, en ég hef áhyggjur af því hvað verði um hana,“ sagði Marcelli. „Hún vill ekki sálfræðiaðstoð sem er í boði í fangelsinu og henni finnst hún ekki þurfa neina hjálp. Hún þarf betra fólk í kringum sig.“

Marcelli segist halda að Gypsy sé ekki orðin betri manneskja í dag heldur sé hún aðeins að þykjast svo hún fái frelsið fyrr.

„Ég vil að hún sleppi og lifi góðu lífi, en hún þarf mikla hjálp.“

Gisclair tók undir þetta. Móðir Gypsy hafi verið svikari og svik séu það eina sem Gypsy þekkir.

„Dee Dee beitti Gypsy ofbeldi. Móðir hennar kenndi henni að svíkja og það er það eina sem Gypsy þekkir. Við viljum bara það besta fyrir Gypsu, en vandinn er sá að Gypsy trúir því ekki að hún glími við erfiðleika. Hún lítur ekki svo á að hún hafi upplifað áföll í bernsku.“

Marcelli segir að Gypsy hafi sýnt fram á dómgreindarbrest í fangelsinu og eigi til að missa stjórn á skapi sínu.

Hún hafi einnig verið í samskiptum við karlmenn, einkum eftir að hún sleit trúlofun sinni við fyrrverandi unnusta sinn. Marcelli óttast að hún eigi eftir að kynnast karlmanni um leið og hún er laus og giftast honum. Karlmenn hafi jafnvel gert sér ferð í fangelsið til að hitta hana, einn þeirra hafi verið 20 árum eldri en Gypsy. Telur Gisclair ljóst að þessir karlmenn séu aðeins á höttunum eftir frægð og frama.