Mögnuð uppgötvun í minnisblöðum Leonardo da Vinci – DV

0
123

Leonardo da Vinci, ítalski málarinn, myndhöggvarinn, arkitektinn, vísindamaðurinn og uppfinningamaðurinn var þekktur fyrir að geta hugsað stórt og mikið. Nú verður hugsanlega hægt að bæta enn einu afrekinu við á ferilskrá hans. Við yfirferð vísindamanna á dagbókum da Vinci, sem var uppi frá 1452 til 1519, hafa þeir fundið enn eina snilldina frá honum. Þetta eru uppdrættir af módeli fyrir þyngdaraflið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Caltech University.

Isaac Newton lýsti þyngdaraflinu á átjándu öld en nú er komið í ljós að rúmum hundrað árum áður hafði da Vinci hugsað á svipaðan hátt.

Mory Gharib, prófessor í loftferðafræði, fann áhugaverða uppdrætti í einni minnisbóka da Vinci. Þetta eru uppdrættir af þríhyrndum formum sem voru mynduð með krukku sem sandur lak úr.

Gharib og samstarfsfólk hans þýddu lýsingar da Vinci, sem voru á ítölsku og skrifaðar speglaðar en það var tækni sem da Vinci notaði því hann var örvhentur og átti á hættu að þurrka blekið úr blekpennanum með hönd sinni.

Í textanum lýsir da Vinci tilraun þar sem krukka hreyfist yfir línu samsíða jörðinni á meðan sandur lekur úr henni. Da Vinci vissi að sandurinn myndi ekki leka á sama hraða heldur myndi hraðinn aukast og að vegna þyngdaraflsins myndi sandurinn leka niður.