Morðið í herstöðinni í Keflavík – Ashley fannst blóði drifin í stigaganginum – DV

0
85

Sunnudagskvöldið 14. ágúst 2005 fannst hermaðurinn Ashley Turner blóði drifin í sófa í stigagangi á fyrstu hæð blokkar hermanna á Keflavíkurflugvelli. Ashley var aðeins tvítug að aldri, flugliði í þyrlubjörgunarsveit vallarins. Hafði hún verið stungin ítrekað og bar mikla áverka. Ljóst var að mikið hafði gengið á því blóð var um gólf og veggi.

Hún var enn með lífsmarki en var úrskurðuð látin við komu á sjúkrahús. Talið var að stungusár á hnakka hefði orðið henni að bana.

Þjófnaður nágrannans

Ashley Turner var fædd í Maryland fylki í Bandaríkunum árið 1985, dóttir foreldra sem bæði voru í sjóhernum og fylgdi hún í fótspor þeirra við útskrift úr menntaskóla. Því næst starf­aði hún í tæknideild björg­unarsveitar varnarliðsins með góðum vitnisburði. Hún stefndi síðar á nám í dýralækningum.

Ashley Skömmu síðar var Calvin Hill, tvítugur hermaður handtekin grunaður um að hafa ráðið henni bana. Áður hafði Ashley kært manninn fyrir að stela, ásamt öðrum hermanni, hátt á þriðja þúsund dollurum af bankakorti sínu og höfðu þau átt í deilum vegna þessa. Bjuggu þau í sömu byggingu á meðan málið var í rannsókn og þykir nokkuð merkilegt að Turner skuli ekki hafa verið boðinn nýr gististaðður. Hill var enn að bíða niðurstöðu í því máli þegar morðið átti sér stað en meintum samverkamanni hans hafði verið vísað úr landi. Þegar Turner var myrt voru aðeins nokkrir dagar í að hún ætti að bera vitni í málinu.

Ashley ásamt móður sinni Blóðblettir og horfinn hnífur

Þar sem engir Íslendingar komu að málinu tók bandaríski herinn við málinu að fullu og komu til landsins erlendir sérfræðingar að beiðni hersins. Flestir sem að málinu komu töldu að morðið væri fullsannað á Hill þar sem til að mynda blóðblettir úr Turner fundust á skóm hans. Ekki bætti úr skák að kærasta Hill bar fyrir dómi að sama kvöld hefði hann brugðið sér út yfir bíómynd og sagst myndu þurfa að hitta yfirmann sinn. Þegar hann sneri aftur hófst hann þegar handa við að þvo föt sín. Kærstan bar einnig fyrir að rétti að hnífur hefði horfið með Hill úr eldhúsinu.

Allir sem að máinu komu töldu að réttarhöld yrðu til málamynda, svo óvéfengjanlegar væru sannanirnar. Hann neitaði þó ávallt sök en játaði þjófnaðinn. Hill var fluttur til Þýskalands í kjölfarið og yfirheyrður og þaðan til Bandaríkjann þar sem dæmt var í málinu. Átti hann yfir sér lífstíðar- og jafnvel dauðadóm. Það kom varnarliðinu í opna skjöldu þegar Hill var sýknaður af morðinu þar sem kviðdómur taldi að ekki hefði verið rannsakað nægilega hvort aðrir gerendur kæmu til greina, til að mynda kærasti Turner sem átti yfir sér dóm vegna fíkniefnabrots.

Calvin Hill Vonuðust eftir dauðarefsingu

Eina refsingin sem Hill fékk var lækkun í tign í hernum. Foreldar Turners voru aftur á móti afar ósáttir við meðferð og niðurstöðu og gagnrýndu til að mynda harðlega að dóttir þeirra hefði verið neydd til að búa í sama stigagangi og Hill eftir þjófnaðinn. Þau sögðu opinberlega hafa vonast eftir dauðarefsingu.

„Við erum afar vonsvik­in,“ sagði Larry Turner, faðir Ashley í samtali við fréttamenn, skömmu eftir að dómur féll. „Ég er hræddur um samfélagið. Það gengur morðingi laus. Dóttir mín er dáin og einhver var valdur að dauða hennar.“

Frá umfjöllun DV um málið á sínum tíma. Ekkert frekar aðhafst

Bandarísk yfirvöld gáfu út þá yfirlýsingu að þau myndu ekkert aðhafast frekar í málinu og kannaði þá fjölskylda Turner hvort unnt væri að hefja mál gegn Hill á Íslandi. Svo gekk ekki þar sem í viðauka við Varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 segir að ríkisstjórn Íslands óski ekki eftir að fara með lögsögu í málum varnarliðsmanna sem hún hafi áskilið sér nema um sé að tefla sakir sem hafi sérstaka þýðingu fyrir Ísland.

Ef engin ný sönnunargögn koma upp sem benda á að einhver annar gæti verið morðingi Ashley Turners, eða gefa staðfestingu á sekt Calvin Hills, mun engum verða refsað fyrir morðið um ókomna tíð.