-1 C
Grindavik
23. nóvember, 2020

Mótfallin þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn

Skyldulesning

Reykjavíkurflugvöllur. Aðalbrautin sem liggur frá norðri til suðurs.

Reykjavíkurflugvöllur. Aðalbrautin sem liggur frá norðri til suðurs.

mbl.is/Sigurður Bogi

Reykjavíkurborg leggst eindregið gegn því að þingsályktunartillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framtíð Reykjavíkurflugvallar verði samþykkt.

Þetta kemur fram í umsögn borgarlögmanns um tillöguna sem var lögð fram á fundi borgarráðs í gær. Þar var umsögnin samþykkt af borgarráðsfulltrúum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.

„Umrædd tillaga til þingsályktunar er í andstöðu við stjórnarskrárvarinn sjálfsstjórnarrétt og skipulagsvald sveitarfélaga. Þá er bent á í umsögn borgarlögmanns og borgarstjóra að niðurstaða slíkrar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu getur hvorki bundið Reykjavíkurborg né haggað gildi lögmætra skipulagsáætlana sem gilda um Reykjavíkurflugvöll. Þá er bent á að nú þegar er að störfum hópur sem kannar Hvassahraun til hlítar sem nýtt flugvallarstæði. Sá hópur á að skila niðurstöðu fyrir lok árs 2022,“ segir í bókun meirihlutans.

Þingmenn úr röðum allra flokka Alþingis, nema Viðreisnar og Samsfylkingarinnar, eru flutningsmenn þingsályktunartillögunnar. Sambærilegar tillögur hafa verið fluttar fimm sinnum áður, síðast á 150. löggjafarþingi, að því er kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Í umsögn borgarlögmanns kemur fram að fulltrúar Reykavíkurborgar séu reiðubúnir til að mæta fyrir þingnefnd til að gera betur grein fyrir sjónarmiðunum í umsögninni.

„Sláandi“ umsögn

Í bókun Sjálfstæðisflokksins kemur þetta fram: „Þann 28. nóvember 2019 undirrituðu borgarstjóri og samgönguráðherra samkomulag um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvöllur yrði tryggt áfram í óskertri mynd þar til annar jafngóður eða betri kostur hafi fundist. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði orðrétt við þetta tilefni: „Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samkomulagi við borgina um að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri þar til annar jafngóður eða betri kostur verður tilbúinn. Það skapar öryggi fyrir innanlands¬flugið og heldur þeirri góðu tengingu sem verður að vera milli landsbyggðar og höfuðborgar.“

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins segir í sinni bókun að Reykjavíkurborg krefjist þess að vera sjálfstæð, sérstaklega í skipulagsmálum. En þegar komi að bágum fjármálum borgarinnar eigið ríkið að koma með gríðarlegt fjármagn inn í reksturinn.  

Reykjavíkurflugvöllur.

Reykjavíkurflugvöllur.

mbl.is

„Umsögn borgarlögmanns er sláandi þegar litið er til samnings ríkisins við Reykjavíkurborg um framtíð Reykjavíkurflugvallar frá 29. nóvember 2019. Ég hef nú þegar skrifað stjórn umhverfis- og samgöngunefndar bréf þar sem ég lýsti yfir forsendubresti Reykjavíkurborgar við samninginn. Búið er að tryggja 200 milljónir til „rannsókna“ í Hvassahrauni og skiptu ríki og borg kostnaðinum til helminga. Þau rök borgarinnar að vera á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar eru fáránleg þegar litið er til þess að í umsögninni er sífellt klifað á íbúakosningu sem haldin var í Reykjavík árið 2001,“ segir meðal annars í bókuninni.

Innlendar Fréttir