1 C
Grindavik
15. janúar, 2021

Mourinho: Enginn að væla þegar við spiluðum fjóra leiki á viku

Skyldulesning


Arnar Geir Halldórsson skrifar

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, gefur lítið fyrir umræðu sem Jurgen Klopp, stjóri Liverpool og Pep Guardiola, stjóri Man City, hafa leitt að undanförnu.

Gríðarlegt leikjaálag hefur verið á þeim liðum ensku úrvalsdeildarinnar sem eru einnig þátttakendur í Evrópukeppnum, að undanförnu. Klopp og Guardiola hafa farið mikinn og Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, hefur einnig gagnrýnt leikjaniðurröðunina í úrvalsdeildinni.

Mourinho gefur lítið fyrir þessa umræðu.

„Við spiluðum fjóra leiki á einni viku og þá var enginn vælandi yfir því. Við fengum heldur engan stuðning en núna láta kollegar mínir mikið í sér heyra. Hvenær vilja þeir spila þessa leiki?“ spyr Mourinho.

Portúgalinn bendir einnig á að Man Utd og Man City hafi spilað færri leiki í deildinni en önnur lið en Manchester liðin tvö auk Leeds, Burnley, Aston Villa og Newcastle eiga einn leik til góða á önnur lið deildarinnar.

„Það er ekki gott fyrir deildina. Ég veit ekki hvenær þessir leikir verða spilaðir. Það er erfitt að sætta sig við þetta því þessi staða hefur áhrif á keppnina. Ég hef leitað eftir svörum en það getur enginn svarað,“ segir Mourinho.

Innlendar Fréttir