8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Mourinho: Ómögulegt að halda öllum leikmönnum ánægðum

Skyldulesning

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, ráðlagði óánægðum leikmönnum sínum að drífa sig í heita sturtu.

Jose Mourinho var spurður út í óánægju í leikmannahópnum sínum eftir sigurinn á belgíska félaginu Royal Antwerpen í Evrópudeildinni í gær en með honum tryggði Tottenham sér sigur í riðlinum.

Það hefur gengið vel hjá Tottenham á þessu tímabili og Mourinho hefur haldið sig við svipað byrjunarlið allan tímann. Það hefur skilað liðinu á toppinn i ensku úrvalsdeildinni og í efsta sæti í Evrópuriðlinum.

Í gær leyfði Mourinho sér að hvíla menn eins og framherjaparið Harry Kane og Son Heung-min. Þess í stað spiluðu Gareth Bale, Carlos Vinicius og Harry Winks.

Það mátti hins vegar sjá óánægð andlit. Harry Winks strunsaði inn í klefa eftir að honum var skipt útaf og varamaðurinn Dele Alli, fór líka inn í klefa eftir að Mourinho notaði sína fimmtu og síðustu skiptingu. Alli kom reyndar aftur til baka.

„Ég get ekki haldið öllum í leikmannhópnum ánægðum. Ég trúi því að þeir séu ánægðir af því að liðið er að vinna en þeir eru ekki ánægðir af því að þeir fá ekki að spila,“ sagði Jose Mourinho við BT Sport eftir leikinn.

„Ég sagði við alla leikmenn sem komu af velli að drífa sér í heita sturtu því það væri kalt. Sumir ákváðu að fara strax í sturtu en aðrir ekki,“ sagði Mourinho.

„Það er bara ómögulegt að halda öllum leikmönnum ánægðum og hjá öllum félögum eru þeir leikmenn ósáttir sem fá ekki að spila.,“ sagði Mourinho en hann var spurður sérstaklega út í Dele Alli sem hefur aðeins spilað tvo leiki og í samtals 66 mínútur í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

„Við skulum halda okkur við veruleikann. Leikmaður sem er á bekknum og sér að það er búið að nota alla fimm skiptingarnar eru auðvitað ekki ánægður. Ég býst heldur ekki við því að hann sé ánægður,“ sagði Jose Mourinho.

Dele Alli hefur aðeins byrjað einn leik í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og það var leikur á móti Everton í fyrstu umferð þar sem Mourinho tók hann af velli í hálfleik.

Innlendar Fréttir