0 C
Grindavik
23. nóvember, 2020

Mun Guðni reyna að sannfæra Heimi Hallgrímsson um að koma heim?

Skyldulesning

Guðni Bergsson formaður KSÍ og stjórn sambandsins mun á næstu dögum og vikum fara yfir þjálfaramál hjá A-landsliði karla. Erik Hamren hafði ekki áhuga á að halda starfinu áfram og stýrir hann liðinu í síðasta sinn á miðvikudag.

Hamren hefur stýrt liðinu í tvö ár og var örfáum mínútum frá því að koma liðinu inn á Evrópumótið í síðustu viku, þegar liðið tapaði gegn Ungverjaland.

Atli Viðar Björnsson sérfræðingur Stöð2 Sport myndi gera allt til þess að fá Heimi Hallgrímsson heim á ný eftir tvö ár í Katar.

„Fyrir mér væri fyrsta, annað og væntanlega þriðja símtalið til Katar. Hvernig er staðan á Heimi Hallgrímssyni? Hefur hann einhvern áhuga á að koma heim aftur, byrja þessa uppbyggingu og taka aftur við liðinu?“ sagði Atli Viðar á Stöð2 Sport í gær.

Heimir lét af störfum eftir Heimsmeistaramótið í Rússlandi árið 2018 og hefur síðan þá starfað hjá Al-Arabi í Katar.

„Ég geri ekki ráð fyrir að Heimir segi já í fyrsta símtali og þess vegna segi ég að annað og þriðja símtal eigi að vera til hans og reyna að sannfæra hann um að hann sé maðurinn í starfið.“

Arnar Þór Viðarsson þjálfari U21 liðsins og Rúnar Kristinsson þjálfari KR eru á meðal þeirra þjálfara sem eru mest orðaðir við starfið.

Innlendar Fréttir