Mýflugur eru eldri en elstu risaeðlurnar – DV

0
86

Mýflugur lifa ekki lengi, það er að segja hver einstaklingur, en tegundin hefur verið hér lengi og er eldri en elstu risaeðlurnar. Á klettaströnd á Mallorca fundu vísindamenn elsta þekkta steingervinginn af mýflugu. Hann er 247 milljóna ára gamall að sögn Popular Science. Hann er því eldri en elstu þekktustu risaeðlusteingervingarnir.

Það var þessi hái aldur sem vakti sérstaka athygli vísindamanna sem segja að steingervingurinn sýni að mýflugur hafi getað lifað stærstu fjöldaútrýmingarnar á jörðinni af.

Enrique Penalver, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að rannsóknin hafi leitt í ljós að mýflugur séu enn með sömu höfuðuppbyggingu, hluti af meltingarkerfinu sé eins sem og opið niður í öndunarfærin.

Öndunarfærakerfi mýflugunnar fornu minnir mjög á öndunarfærakerfi nútímamýflugna og telja vísindamenn það líklega ástæðu þess að tegundin hefur lifað svo lengi sem raun ber vitni.

Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Papers og Palentology og getur hún hugsanlega tryggt mýflugum sæti á lista yfir þær tegundir sem geta lifað fjöldaútrýmingu og nánast heimsendi af.