Myndband sýnir þegar lögreglumenn fóru húsavillt og skutu fjölskylduföður til bana – DV

0
92

Yfirvöld í Farmington í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum hafa birt myndbönd úr búkmyndavélum lögreglumanna sem skutu hinn 52 ára gamla Robert Dotson til bana á dögunum.

Málið hefur vakið talsverða athygli enda fóru lögreglumennirnir húsavillt seint að kvöldi 5. apríl síðastliðinn þegar þeir fengu tilkynningu um heimilisofbeldi.

Í myndbandinu má sjá þegar lögreglumenn banka þrisvar á dyrnar og tilkynna að þeir séu lögreglumenn. Þeir heyrast svo ræða sín á milli hvort þeir séu ekki örugglega á réttum stað. „Var það 43 eða 5308. Þetta er ekki 5308?,“ segir annar lögregluþjónninn áður en Robert kemur til dyra vopnaður skammbyssu.

Robert var búsettur í húsi númer 5305 en tilkynningin var vegna gruns um heimilisofbeldi í húsi númer 5308 sem er handan götunnar.

Um leið og lögregluþjónarnir urðu þess varir að Robert væri vopnaður skutu þeir hann nokkrum sinnum og lést hann af sárum sínum. Óvíst er hvort hann hafi áttað sig á að lögreglan væri fyrir utan húsið hans eða hvort hann hafi talið að einhver væri við heimili hans í vafasömum tilgangi.

Um mínútu eftir að Robert var skotinn til bana kom eiginkona hans til dyra og tók upp byssuna hans og skaut í átt að lögreglumönnum. Um leið og hún áttaði sig á að þeir væru lögreglumenn lagði hún vopnið frá sér.

Steve Hebbe, lögreglustjóri í Farmington, segir við NBC News að myndbandið hafi verið birt í þágu gagnsæis og til að varpa ljósi á atburðarásina þetta örlagaríka kvöld. Um sé að ræða sorgardag, bæði fyrir lögreglu og Dotson-fjölskylduna, en Robert og eiginkona hans áttu tvö börn sem voru heima þegar atvikið átti sér stað.

Óvíst er hvort einhverjir eftirmálar verði af málinu fyrir lögreglumennina sem skutu Dotson til bana.