7.3 C
Grindavik
23. september, 2021

Myndi spilla ummerkjum Skaftárelda

Skyldulesning

Eldgosið úr Lakagígum, Skaftáreldar, varð á 18. öld.

Eldgosið úr Lakagígum, Skaftáreldar, varð á 18. öld.

Ljósmynd/Gísli Sigurðsson

Búlandsvirkjun hefði í för með sér rof á einstæðri jarðfræðilegri heild. Hún myndi spilla ummerkjum Skaftárelda, sem eru einstæðar minjar á heimsvísu. Einstök lindasvæði gætu raskast og fjölbreytt búsvæði fiska og smádýra mundu eyðileggjast.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í rökstuðningi verkefnisstjórnar í þingsályktunartillögu umhverfis- og auðlindaráðherra um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða. Þar farið yfir tillögur verkefnisstjórnarinnar um flokkun 82 virkjunarkosta sem ákveðið var að yrðu lagðar fram óbreyttar á Alþingi.

Um er að ræða þriðja hluta rammaáætlunar. 

Eftir að fjórir faghópar höfðu skilað niðurstöðum sínum voru endanlegar tillögur verkefnastjórnar til umhverfis- og auðlindaráðherra afhentar í ágúst 2016. Tillögur verkefnisstjórnar eru einróma ef frá er talinn virkjunarkosturinn Hólmsárvirkjun við Atley.

Langtímasjónarmið og hagsmunamat

Samkvæmt áætluninni skal tryggja að nýting landssvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati. Tillit verði tekið til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, ásamt hagsmunum þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, að því er kemur fram í þingsályktunartillögunni.

Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Hún tekur þó ekki til stækkunar á virkjun nema stækkunin feli í sér matsskyldar framkvæmdir 

Áætlunin tekur heldur ekki til landsvæða sem njóta friðlýsingar í samræmi við lög um náttúruvernd nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði.

Rökstuðningur verkefnisstjórnar fyrir flokkun hvers virkjunarkosts varðandi nýjar afgreiðslur. Lengri útgáfu má sjá í þingsályktunartillögunni:

1. Orkunýtingarflokkur

Kort/mbl.is

A. Vatnasvið

Suðurland:

Skrokkalda – Skrokkölduvirkjun

„Virkjunin er á miðhálendinu en þar sem nú þegar er búið að gera miðlunarlón (Hágöngulón), stíflur og tilraunaborholur er ekki lengur um óraskað svæði að ræða. Mannvirki virkjunarinnar verða að mestu neðanjarðar og því lítt sýnileg, að frátöldu hlaðhúsi, spenni og 1 km löngum skurði vestan við núverandi Sprengisandsleið.“

Þjórsá – Holtavirkjun

„Óvissu um virkni seiðafleytna og um áhrif vatnsmagns- og rennslisbreytinga á gönguleiðir, hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar laxfiska verður ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á, eðlilegt að um hana sé fjallað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við leyfisveitingar.“

Þjórsá – Urriðafossvirkjun

„Óvissu um virkni seiðafleytna og um áhrif vatnsmagns- og rennslisbreytinga á gönguleiðir, hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar laxfiska verður ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á. Eðlilegt er að um hana sé fjallað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við leyfisveitingar.“

Vestfirðir:

Austurgil – Austurgilsvirkjun

„Virkjunarkosturinn er inni á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu, en samkvæmt niðurstöðum faghóps 2 hefði virkjun á svæðinu lítil áhrif á ferðamennsku, beit og veiði. Í ljósi framkominna gagna um gróðurfar, jarðfræði, fuglalíf, vatnalíf og menningarminjar á svæðinu er lagt til að virkjunarkosturinn verði í orkunýtingarflokki.“

B. Háhitasvæði

Reykjanesskagi:

Krýsuvíkursvæði – Austurengjar

„Fremur lágar einkunnir faghópa 1 og 2. Verði virkjunarkosturinn nýttur er að mati faghóps 2 líklegt að verðmæti svæðisins í kringum Trölladyngju muni aukast, sérstaklega í ljósi nálægðar svæðisins við höfuðborgarsvæðið, og það sama gildir um svæðið við Austurengjar ef virkjun yrði reist við Trölladyngju. Vegna samlegðaráhrifa ber því að skoða ráðstöfun Austurengja í samhengi við afdrif svæðisins í grennd við Trölladyngju.“ Lagt er til að Austurengjar falli í nýtingarflokk en Trölladyngja í biðflokk.

Trölladyngja.

Hengilssvæði – Hverahlíð II

„Lágar einkunnir faghópa 1 og 2 og stækkun á þegar röskuðu svæði en virkjunarkosturinn felur í raun í sér stækkun virkjunarsvæðisins í Hverahlíð til suðurs undir Norðurhálsa.“

Hengilssvæði – Þverárdalur

„Fremur lágar einkunnir faghópa 1 og 2. Verði virkjunarkosturinn nýttur er að mati faghóps 2 líklegt að verðmæti Innstadals muni aukast, sérstaklega í ljósi nálægðar svæðisins við höfuðborgarsvæðið. Vegna samlegðaráhrifa ber því að skoða ráðstöfun Þverárdals í samhengi við afdrif Innstadals. Af þeim sökum er ekki talið réttlætanlegt að ráðstafa báðum þessum virkjunarkostum án þess að leggja nýtt mat á þau áhrif sem ráðstöfun annars svæðisins hefur á verðmæti hins.“ Lagt er til að Þverárdalur falli í nýtingarflokk en Innstidalur í biðflokk.

2. Biðflokkur

Kort/mbl.is

A. Vatnasvið

Suðurland:

Hólmsá – Hólmsárvirkjun

„Hátt verndargildi og há áhrifaeinkunn faghóps 2, mikil framtíðarverðmæti fyrir ferðaþjónustuna og hugsanleg samlegðaráhrif vegna ráðstöfunar annarra verðmætra vatnasviða. Talið þjóna almannahagsmunum að bíða með ákvörðun um ráðstöfun vatnasviðsins þar til lagt hefur verið nýtt mat á verndargildi þess.“

Hólmsá – Hólmsárvirkjun við Atley

„Hátt verndargildi og fremur há áhrifaeinkunn faghóps 2.“ Annars sami rökstuðningur og í Hólmsárvirkjun.

Mælifell. Strútur er í baksýn, Hólmsárlón og Strútslaug eru handan …

Mælifell. Strútur er í baksýn, Hólmsárlón og Strútslaug eru handan hans.

mbl.is/RAX

Hvítá – Búðartunguvirkjun

„Hátt verndargildi, nálægð við Gullfoss en virkjunarkosturinn felur í sér inngrip í Hvítá skammt fyrir ofan fossinn. Skortur er á rannsóknum á áhrifum á upplifun ferðamanna en engar slíkar rannsóknir eru til.“

Hagavatn – Hagavatnsvirkjun

„Mjög mikill breytileiki í einkunnum fyrir einstök viðföng, þ.e. mjög háar og mjög lágar einkunnir. Mjög verðmæt ummerki um hörfunarsögu jökuls, en ummerki þessarar sögu eru óröskuð. Miklir framtíðarmöguleikar fyrir útivist. Mannvirkjagerð á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt skilgreiningu laga um náttúruvernd. Hugsanleg samlegðaráhrif með Búðartunguvirkjun.“

Stóra-Laxá – Stóra-Laxá

„Fremur lág meðaltöl áhrifaeinkunna, neikvæð áhrif á fágætan laxastofn og miklir framtíðarmöguleikar fyrir ferðaþjónustu. Mannvirkjagerð á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt skilgreiningu laga um náttúruvernd, hugsanleg samlegðaráhrif með Þjórsá og óvissa um samfélagsleg áhrif.“

B. Háhitasvæði

Reykjanessvæði:

Krýsuvíkursvæði – Trölladyngja

„Fremur lágar einkunnir faghópa 1 og 2 og vegna samlegðaráhrifa er líklegt að verðmæti svæðisins aukist ef virkjað verður við Austurengjar og ber að skoða ráðstöfun í samhengi við afdrif þess svæðis.“

Hengilssvæði – Innstidalur

„Vaxandi fágæti lítt raskaðra útivistarsvæða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Vegna samlegðaráhrifa ber að skoða ráðstöfun í samhengi við afdrif Þverárdals.“

Suðurland:

Hágöngur – Hágönguvirkjun

„Tiltölulega há áhrifaeinkunn faghóps 2 og mikið sýnilegt rask í næsta nágrenni friðlýsts svæðis. Skortur á skilgreiningu skilmála fyrir nærsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.“

Norðausturland:

Fremrinámar – Fremrinámar

„Upplýsingar skortir um öflun kælivatns og mikill breytileiki er í einkunnum fyrir einstök viðföng, þ.e. mjög háar og mjög lágar einkunnir. Virkjun mundi skerða víðerni og landslagsheildir. Mannvirkjagerð á svæði sem er óbyggt víðerni og framtíðarvirði er hugsanlega vanmetið. Mjög sérstök örveruflóra á svæðinu.“

3. Verndarflokkur

Kort/mbl.is

A. Vatnasvið

Norðurland:

Héraðsvötn – Skatastaðavirkjun C

„Vatnasvið Héraðsvatna er með hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í faghópi 1 í 3. áfanga og þá er virkjunarkosturinn Skatastaðavirkjun C með næsthæstu áhrifaeinkunn allra virkjunarkosta sem faghópurinn fjallaði um.“ Virkjun mundi hafa í för með sér umtalsvert rask á hálendi, slíta sundur vistkerfi og samfélög lífvera og spilla stórum minjaheildum sem er jafnvel einstakar á heimsvísu. Einnig yrði mikil skerðing á sjónrænni fjölbreytni og á fágætum landslagsgerðum Í niðurstöðum faghóps 2 kemur fram að jökulsárnar í Skagafirði séu bestu ár á landinu, og jafnvel í Evrópu, til flúðasiglinga. Þær séu því mikilvægar fyrir ferðaþjónustu, að því er segir í rökstuðningi. 

Héraðsvötn – Skatastaðavirkjun D

„Virkjunarkosturinn Skaðastaðavirkjun D með þriðju hæstu áhrifaeinkunn sem faghópurinn fjallaði um.“ Annars er rökstuðningurinn sá sami og fyrir Skatastaðavirkjun C.

Héraðsvötn – Villinganesvirkjun

„Villinganesvirkjun mundi hafa í för með sér umtalsvert rask, aftengja landmótunarferli vatnsfalla og hylja gljúfur. Virkjunin mundi slíta sundur vistkerfi og samfélög lífvera, raska alþjóðlega mikilvægum fuglasvæðum á láglendi, hafa mikil neikvæð áhrif á vistgerðir með verulegt verndargildi samkvæmt náttúruverndarlögum og valda mikilli röskun vegna breytinga á rennsli og framburði.“ Einnig er minnst á mikilvægi jökulsánna í Skagafirði.

Héraðsvötn – Blanda, Vestari-Jökulsá

„Vestari-Jökulsá er hluti af því landsvæði sem lagt er til að flokkað verði í verndarflokk (sbr. umfjöllun um virkjunarkostina Skatastaðavirkjun C, Skatastaðavirkjun D og Villinganesvirkjun) og því er lagt til að virkjunarkosturinn verði flokkaður í verndarflokk.“

Fuglafriðland við Héraðsvötn.

Fuglafriðland við Héraðsvötn.

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Skjálfandafljót – Fljótshnúksvirkjun

„Vatnasvið Skjálfandafljóts er með þriðja hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í faghópi 1 í 3. áfanga. Virkjunin mundi hafa í för með sér umtalsvert rask á hálendi, mikla röskun á varpstöðvum heiðagæsa og fálka og einnig röskun á framburði og vatnsstöðu niður í sjó, þar sem eru mikilvæg votlendissvæði fyrir fugla, einhver þau tegundaríkustu á landinu. Á vatnasviði Skjálfandafljóts eru 16 tegundir fugla á válista“. Virkjunin er einn þriggja virkjunarkosta sem hafa mundu mest neikvæð áhrif á ferðamennsku og útivist samkvæmt niðurstöðum faghóps 2.

Skjálfandafljót – Hrafnabjargavirkjun A

„Virkjunin mundi minnka vatnsmagn í Ingvararfossi og Aldeyjarfossi verulega, hafa í för með sér umtalsvert rask við Hrafnabjörg, raska mjög varpstöðvum heiðagæsa og fálka, svo og framburði og vatnsstöðu niður í sjó, þar sem eru mikilvæg votlendissvæði fyrir fugla, einhver þau tegundaríkustu á landinu. Á vatnasviði Skjálfandafljóts eru 16 tegundir fugla á válista.“ Samkvæmt niðurstöðum faghóps 2 mundi virkjunin draga mjög úr áhuga ferðamanna á að ferðast um svæðið. Virkjunarkosturinn er einn þeirra fimm sem mundu hafa mest neikvæð áhrif á ferðamennsku og útivist.

Skjálfandafljót – Hrafnabjargavirkjun B

„Virkjunin hlífir Aldeyjarfossi en mundi minnka vatnsmagn í Ingvararfossi verulega.“ Annars er rökstuðningurinn svipaður og fyrir Hrafnabjargavirkjun A.

Skjálfandafljót – Hrafnabjargavirkjun C

Sami rökstuðningur og fyrir Hrafnabjargsvirkjun B.

Skjálfandafljót.

Skjálfandafljót.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Suðurland:

Skaftá – Búlandsvirkjun

„Vatnasvið Skaftár er með næsthæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í faghópi 1 í 3. áfanga. Þá fékk virkjunarkosturinn hæstu áhrifaeinkunn allra virkjunarkosta sem til umfjöllunar voru, bæði hjá faghópi 1 og faghópi 2. Í niðurstöðum faghóps 1 kemur fram að Búlandsvirkjun mundi hafa í för með sér rof á einstæðri jarðfræðilegri heild og spilla ummerkjum Skaftárelda sem eru einstæðar minjar á heimsvísu. Einstök lindasvæði gætu raskast, fjölbreytt búsvæði fiska og smádýra mundu eyðileggjast og mikil óvissa er um vatnsrennsli á verðmætustu búsvæðunum.“ Búlandsvirkjun hefur næstmest neikvæð áhrif á ferðamennsku og útivist af þeim virkjunarkostum sem til umfjöllunar eru.

Við Skaftá.

Þjórsá – vestur   –   Kjalölduveita

„Að fengnu áliti faghópa 1 og 2 taldi verkefnisstjórn að um væri að ræða breytta útfærslu Norðlingaölduveitu, að sama vatnasvið, Þjórsárver, sé undir í báðum tilvikum og að virkjunarframkvæmdir á þessu landsvæði muni hafa áhrif sem skerði verndargildi svæðisins.“ Breytt útfærsla virkjunarkostsins hefur ekki áhrif á þessar grunnforsendur flokkunarinnar.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir