Ber er hver að baki nema sér bróður eigi, eða svo er sagt. Sú var þó ekki raunin í tilfelli Bandaríkjamannsins Jeffrey Roberts sem er talinn hafa ekið í um 12 klukkustundir, frá Kaliforníu til Utah í þeim tilgangi einum að bana bróður sínum. Umrædd leið er rúmir 1100 km.
Jeffrey bankaði svo heima hjá bróður sínum, Scott, skaut hann til bana og kveikti svo í húsi hans. Það skuggalega við málið er að öryggismyndavél við heimil Scott tók þetta allt upp. Þetta átti sér stað í lok apríl á þessu ári.
Yfirvöld hafa nú birt myndskeiðið sem sýnir átökin milli bræðrana. Jeffrey sést ræða við bróður sinn í aðeins örskamma stund áður en hann grípur upp bysus og fer að skjóta. Jeffrey spurði bróður sinn fyrst hvað væri að frétta en bróðir hans var tortrygginn og vildi vita hvað Jeffrey vildi honum. Jeffrey sagðist vera kominn til að hitta móður þeirra, en bróðir hans benti á að hún byggi þarna ekki lengur heldur í öðru ríki og hefði verið þar í um það bil ár. Þá greip Jeffrey upp byssuna.
Nokkrir skothvellir heyrast svo á upptökunni, sem og öskur. Jeffrey sést svo ganga inn í húsið og þá heyrast enn fleiri skothvellir. Næst sést Jeffrey strunsa út og úr mynd en kemur fljótlega aftur með sjópoka og haglabyssu. Aftur kemur Jeffrey út og er þá að ræða við einhvern í síma. Í bakgrunni heyrist í sírenum lögreglubíla og Jeffrey segir í símann – Tæmdu bankareikning minn eins hratt og þú getur. Síðan sést Jeffrey skjóta í átt að götunni og svo sést hvar hann er skotinn ítrekað af lögreglunni áður en hann fellur til jarðar.
Einn lögreglumaður á vettvangi var með búkmyndavél og í upptökum úr henni sést hvar þeir skjóta Jeffrey og nálgast hann svo eftir að hann fellur til jarðar. Lögreglumenn sjá reyk koma frá húsinu og heyra í brunavarnarkerfi. Einn lögreglumaður segir að kona inni í húsinu hafi verið skotin.
„Ég held við getum ekki farið inn fyrir þessum reyk,“ segir einn lögreglumaður.
Lögregla hefur greint frá því að Jeffrey hafi ekki bara skotið bróður sinn, heldur líka mágkonu sína, en hjónin höfðu verið við það að setjast niður til að snæða kvöldverð þegar Jeffrey bankaði á dyrnar. Þrátt fyrir eldinn tókst að koma mágkonunni út úr húsinu, en hún er nú á batavegi.
Umfjöllun Law&Crime Network um myndskeiði má sjá hér fyrir neðan, en við vörum við því að efni þess gæti vakið óhug.