Er líf annars staðar en á jörðinni okkar? Við vitum ekki svarið við þessari spurningu og eru ekki nærri því að vita svarið, að því er við best vitum. En nú telja vísindamenn sig geta varpað ljósi á smá hluta af hinu óendanlega stóra alheimspúsluspili. Í nýrri grein í vísindaritinu Nature Astronomy kemur fram að vísindamenn hafi numið samhangandi útvarpsmerki frá fjarplánetu. Þetta eykur líkurnar á að plánetan sé byggileg.
Merkin eru frá plánetunni YZ Ceti b. Þau eru líklegast ekki frá vitsmunaverum. Vísindamenn telja að þau myndist vegna víxlverkunar segulsviðs plánetunnar og stjörnunnar sem hún er á braut um.
Plánetan er í 12 ljósára fjarlægð frá jörðinni en eitt ljósár svarar til um 9,5 milljarða kílómetra.
Vísindamenn segja að útvarpsmerkin bendi til að plánetan sé með sitt eigið segulsvið eins og jörðin. Segulsvið jarðarinnar verndar okkur gegn hættulegum geislum sólarinnar og af þeim sökum er talið að segulsvið sé eitt af því sem þarf að vera til staðar svo líf geti þrifist.
Fram að þessu hafa vísindamenn átt í erfiðleikum með að staðfesta hvort fjarplánetur séu með eigið segulsvið og þar með í flokki pláneta þar sem líf getur þrifist.