NASA staðfestir að við getum breytt stefnu loftsteina – En það er einn galli – DV

0
204

Fjórar nýjar rannsóknir staðfesta að DART-verkefni bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA virkaði. Það gekk út á að geimfari var klesst á loftsteininn Dimorphos. Þetta dugði til að breyta stefnu hans. Þetta er því aðferð sem gæti komið að gagni við að bægja loftsteinum frá jörðinni. En það er einn galli á þessu öllu. Gallinn á þessu er að við verðum að hafa margra mánaða fyrirvara á þessu til að geta brugðist við. Í tilkynningu frá Nicola Fox, hjá NASA, kemur fram að DART-verkefnið hafi gengið upp og að það sé bara upphafið á þessu sviði. Það bæti við grundvallarskilning okkar á loftsteinum og hvernig við getum varið jörðina fyrir hættulegum loftsteinum með því að breyta braut þeirra.

Geimfarinu var skotið á loft í nóvember 2021 eftir fimm ára undirbúningsvinnu. Markmiðið var að rannsaka hvort hægt væri að breyta braut loftsteins með því að klessa geimfari á hann.

Í september á síðasta ári klessti geimfarið síðan á Dimorphos, sem er 160 metra loftsteinn, í um 11 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðinni. Við þetta breyttist braut loftsteinsins.

Fjórar rannsóknir, sem hafa verið birtar í vísindaritinu NATURE, staðfesta að verkefnið gekk upp og að þessi aðferð geti komið að verkum við að forða jörðinni frá því að loftsteinn skelli á henni. Live Science skýrir frá þessu.