7.4 C
Grindavik
15. júní, 2021

Naumur sigur United gegn botnliðinu

Skyldulesning

Marcus Rashford fagnar öðru marki sínu og þriðja marki Manchester …

Marcus Rashford fagnar öðru marki sínu og þriðja marki Manchester United ásamt Alex Telles, Bruno Fernandes og Anthony Martial.

AFP

Manchester United vann nauman 3:2 sigur gegn botnliði Sheffield United á Bramall Lane í Sheffield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Man. Utd hefur nú unnið 10 útisigra í röð í deildinni. Byrjun Sheffield Utd á tímabilinu jafnar metið yfir þá verstu í sögu enskrar deildakeppni.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Man. Utd því liðið lenti undir strax á 5. mínútu. Þá fékk Dean Henderson í marki Man. Utd. sendingu til baka og hékk lengi á boltanum sem endaði með því að Oliver Burke renndi sér í boltann, hirti hann af Henderson og náði svo að renna boltanum út á David McGoldrick sem skoraði auðveldlega fyrir Sheffield Utd.

Liðsmenn Man. Utd virtust örlítið slegnir út af laginu en unnu sig svo jafnt og þétt inn í leikinn. Á 26. mínútu átti Victor Lindelöf langa sendingu fram á Marcus Rashford. Rashford var einn á auðum sjó og náði frábærri fyrstu snertingu og þrumaði boltanum í netið, 1:1.

Sjö mínútum síðar var Man. Utd búið að snúa taflinu við. Paul Pogba átti þá stórkostlega sendingu inn fyrir á Anthony Martial, sem náði skotinu en Aaron Ramsdale í marki Sheffield Utd varði. Martial náði hins vegar frákastinu og potaði boltanum yfir línuna, 2:1.

Skömmu síðar, á 35. mínútu, gaf Martial boltann á Rashford sem var kominn í ákjósanlegt skotfæri en fast skot hans í nærhornið var varið af Ramsdale.

Staðan í hálfleik 2:1 og Man. Utd í góðri stöðu. Liðið hélt uppteknum hætti í síðari hálfleiknum og var komið í 3:1 á 51. mínútu. Þá fór Man. Utd í algjörlega frábæra skyndisókn þar sem boltinn gekk eldsnöggt manna á milli og endaði með því að Martial renndi boltanum til hliðar á Rashford sem skaut beint á Ramsdale en boltinn lak undir hann og í netið.

Man. Utd hafði áfram tögl og hagldir í leiknum og hefði hæglega getað bætt við mörkum. Það var þó Sheffield United sem minnkaði muninn seint í leiknum þegar McGoldrick skoraði annað mark sitt á 87. mínútu. Þá tók John Fleck hornspyrnu sem Lindelöf náði að skalla en þó ekki lengra en í höfuðið á McGoldrick og þaðan fór boltinn í netið, 3:2.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma fékk Lys Mousset svo dauðafæri til þess að jafna metin en Henderson varði gott skot hans á lofti frábærlega.

Man. Utd náði að halda út og vann að lokum góðan 3:2 sigur.

Eftir sigurinn er Man. Utd komið í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og á enn leik til góða. Sigur í þeim leik gæti komið liðinu alla leið í 2. sætið.

Sheffield Utd situr sem fastast á botni deildarinnar með aðeins eitt stig eftir 13 leiki. Aðeins einu sinni áður hefur lið í ensku deildakeppninni verið í þeirri stöðu. Newport County var með eitt stig eftir þrettán fyrstu leikina í D-deildinni keppnistímabilið 1970-71.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir