4 C
Grindavik
5. mars, 2021

Netsala nær fimmfaldast

Skyldulesning

Frá Degi einhleypra.

Innlend velta íslenskra korta í nóvember nam alls 70,7 milljörðum kr. og jókst um 5,6% á föstu verðlagi. Nam velta Íslendinga innanlands í verslunum 46 milljörðum kr. og hefur aldrei verið meiri í einum mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. 

Aukninguna milli ára má rekja til blómlegrar verslunar í mánuðinum en samdráttar gætir í flestri þjónustu vegna veirufaraldursins. Sömuleiðis virðist sem vinsældir afsláttardaganna Svarts föstudgas, Stafræns mánudags og Dags einhleypra séu mjög miklar. 

Samanborið við sama mánuð í fyrra nam aukning í verslun Íslendinga 28,6% í nóvember, þar sem netverslun vó tæp 17% allrar verslunar í mánuðinum. Velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum jókst um 26,7% samanborið við fyrra ár og nam 18,2 milljörðum. Veltan í mánuðinum sem leið er nánast jafn há og veltan í desember á síðasta ári en hún var 18,3 milljarðar þá.

Netverslun margfaldast

Netverslun í nóvember var 368% hærri en í nóvember í fyrra. Í fjórum flokkum verslunar skreið netverslun yfir milljarð í fyrsta skiptið. Velta stórmarkaða og dagvöruverslana nam einum milljarði á netinu og álíka mikil velta var á netinu með föt. 

Samblanda samkomutakmarkana og áðurnefndu afsláttardaga útskýrir þessa miklu hækkun í veltu netverslunar. Þótt óvíst sé að hvaða marki þessi áhrif í átt til meiri netverslunar vari til lengri tíma má ætla að þau verði einhver.

Innlendar Fréttir