-2 C
Grindavik
24. janúar, 2021

Neymar minnist fyrsta augnabliksins með Maradona – „Ég mun aldrei gleyma þessu“

Skyldulesning

Brasilíska knattspyrnustjarnan Neymar Jr. minntist knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona sem lést nýverið. Neymar talaði þá um það þegar hann hitti Maradona í fyrsta skipti en hann átti eftir að hitta hann oftar eftir það.

Fyrsta skiptið sem Neymar hitti Maradona var sá brasilíski á táningsaldri. Þá var Neymar á mála hjá brasilíska liðinu Santos en Maradona var að spila gegn brasilískum goðsögnum sem voru einnig búnar að setja skóna á hilluna.

Neymar fékk að kíkja í rútu argentíska liðsins og hitti þar Maradona. Neymar á góðar minningar frá þessum fyrsta hitting þeirra. „Ég mun aldrei gleyma þessu,“ segir Neymar. „Rútan fyrir brasilíska liðið var nú þegar full svo ég fékk að fara í argentísku rútuna. Þar voru tveir menn í sviðsljósinu, þeir sátu fremst,“ segir Neymar enn fremur en þessir menn voru þeir Alejandro Mancuso og Diego Maradona.

„Ég fékk að sitja með þeim og þeir komu vel fram við mig. Þegar við mættum á völlinn fékk ég að fara með þeim í búningsklefann og á völlinn. Ég á meira að segja mynda af mér með Maradona frá þessum tíma. Hann kallaði á mig til að taka myndina, ég mun aldrei gleyma því.“

Innlendar Fréttir