5 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Njósnir valda áhyggjum hérlendis vegna sæstrengja

Skyldulesning

Alþingi að kvöldi til.

Alþingi að kvöldi til.

mbl.is/Hari

Njósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar í Danmörku valda sérstökum áhyggjum hérlendis „í ljósi þess að allt tal- og gagnasamband við útlönd fer um þrjá sæstrengi, DANICE, FARICE-1 og Greenland Connect, sem liggja um danska, grænlenska og færeyska lögsögu.“

Þetta kemur fram í svari forsætis-, utanríkis, og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns um málið. Þar spurði hann hvernig ráðuneytið hafi brugðist við „uppljóstrun þess efnis að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hafi nýtt aðgang sinn að dönsku fjarskiptaneti til að njósna um stofnanir og fyrirtæki í Danmörku og nágrannalöndum, í ljósi þess að báðir gagnasæstrengirnir sem tengja Ísland við Evrópu liggja um danskt yfirráðasvæði.“ Þá spurði Andrés einnig hvort málið yrði tekið fyrir á vettvangi þjóðaröryggisráðs.

Stór hluti gagnamagns fer um sæstrenginn

Í svarinu segir að íslensk stjórnvöld fylgist náið með framvindu málsins. Einn fyrrnefndra sæstrengja liggur til Danmerkur. Um hann fer stór hluti gagnamagns frá Íslandi til meginlandsins.

„Mikilvægt er að tryggt sé að fjarskiptaflutningur frá Íslandi til erlendra lendingarstöðva, á landleiðum og á afhendingarstöðum þjónustu erlendis, sé öruggur og að upplýsingaöryggis sé gætt í hvívetna. Íslensk stjórnvöld hafa haldið fundi með og leitað eftir upplýsingum hjá viðeigandi yfirvöldum. Á öllum þeim fundum sem haldnir hafa verið vegna málsins hafa íslensk stjórnvöld lýst yfir áhyggjum og kallað eftir frekari upplýsingum,“ segir í svarinu.

Þá hefur forsætisráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku samráði forsætisráðuneytisins, ritara þjóðaröryggisráðs, ríkislögreglustjóra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins vegna málsins og framvindu þess með tilliti til íslenskra þjóðaröryggishagsmuna. Þjóðaröryggisráði verður gerð grein fyrir málinu.

Sætir áríðandi skoðun

„Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur tekið málið upp við danska utanríkisráðherrann, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins hefur átt samtal við sendiherra Danmerkur á Íslandi um málið og skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins hefur tekið málið upp við danska starfssystur sína. Í þeim samtölum kom fram að málið sætti áríðandi skoðun og að ráðgert væri að óháðir aðilar yrðu fengnir til að gera skýrslu um það. Verkefnislýsingin væri í þróun og myndi taka mið af því að hún varðaði viðkvæman málaflokk, þ.e. leyniþjónustustarfsemi. Þá hefur ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins einnig tekið málið upp við fulltrúa bandarískra stjórnvalda, lýst yfir áhyggjum yfir því og upplýst hann um að ráðuneytið leiti skýringa vegna þess,“ segir í svarinu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fylgist með framvindu málsins en hefur til þessa ekki séð ástæðu til sérstakra viðbragða.

Innlendar Fréttir