3.1 C
Reykjavik
Laugardagur 1 apríl 2023

Nokkur orð um svikna og herleidda þjóð !

Related stories

spot_img

Við Íslendingar höfum verið flæktir í tvennt sem hvorttveggja er andstyggð fyrir þjóð sem vill teljast frjáls og sjálfstæð. Og í báðum tilvikum varð það fyrir óþjóðleg þjónustubrögð íslenskra ráðamanna sem vildu hlýða keisaralegum boðskap að utan og tóku stórpólitískar ákvarðanir framhjá þjóðinni í báðum tilfellum !

Annað tilfellið var herleiðingin inn í Nató, sem aldrei skyldi verið hafa, og hitt var samþykkt EES samningsins sem var líka hræðilegt þjóðréttarlegt slys. Í fyrra tilfellinu lagðist ríkisstjórn Íslands í heilu lagi undir Bandaríkin og í seinna tilfellinu með sama hætti undir Evrópusambandið !

Í báðum tilfellum urðu stjórnvöld hér íslenskum anda og íslensku mannfrelsi til verulegrar skammar. Hvernig við losnum svo frá þessum mjög svo íþyngjandi frelsishöftum er ekki gott að segja meðan þjóðin virðist niðurnjörvuð í einhvern andlegan doða og einskis virðist vera að vænta af ríkisstjórn og þjóðþingi !

Hlutleysisstefnan frá fullveldis-sigrinum 1918 var svikin og við urðum fyrsta herlausa þjóðin í heiminum til að verða meðlimur hernaðarklúbbs sem byggir tilvist sína á stríðshættu og ófriði milli þjóða. Eftir það er ekki mikið eftir sem undirstaða þjóðarstolts !

Því ætti friðsöm örþjóð sem á allt sitt undir friði að vera að gera sig breiða í samskiptum ófriðarafla ? Af hverju þarf inngróin minnimáttarkennd okkar alltaf að skrúfa sig upp í stórmennsku-brjálæði ? Af hverju eru tvær stelpur frá Íslandi sendar á vettvang stríðsátaka eins og það felist eitthvað stórmikið gagn í slíku ? Getur einhver viti borin manneskja skilið það ?

Af hverju er sýndarmennska orðin okkar helsta útflutningsvara ? Af hverju er hégómi alls hégóma látinn sitja í gyllingarhásæti í höfuðborg Íslands í óþökk alls þess sem getur orðið landi og þjóð til framdráttar með heilbrigðum hætti ? Af hverju er þjóðþingið eins og það er og ríkisstjórnin eins og hún er ? Er hægt að finna þar eitthvað sem við getum talið okkur til gildis sem sjálfstæð og virðingarverð þjóð ? Ekki get ég fundið það !

Af hverju erum við Íslendingar, um 300.000 hræður, að blanda okkur í stríðsátök tugmilljóna þjóða og eyða stórfé í það ? Og það fjármagni sem við höfum fulla þörf fyrir hér heima, til að hlynna að okkar eigin fólki. Hvernig geta ráðamenn hegðað sér svona ?

Það vita það allir á Íslandi, nema líklega ríkisstjórnin og þingið, að hér eiga margir bágt í allri hinni stórauglýstu velferð. Það er blóðug skömm fyrir íslensk yfirvöld að bregðast aftur og aftur íslenskum þjóðarþegnum fyrir útlend hlaupadýr !

En það þykir líklega minni stíll yfir því að hjálpa okkar eigin landsfólki en útlendingum og það fær svo þar að auki enga umfjöllun á alþjóðavísu. Hinar háttsettu sálgæsludömur verða líklega seint heimsfrægar fyrir að sinna þjóðlegum nærskyldum sínum á Íslandi !

Oft hefur því miður setið léleg ríkisstjórn á Íslandi, en ég er farinn að komast á þá skoðun að ríkisstjórnin sem nú situr að völdum sé sú lélegasta sem við höfum haft allar götur frá 1918 og enn versnar hún með degi hverjum !

Það er líka sannfæring mín, að enginn ráðherra þessarar stjórnar hafi aukið við gildi sitt með því að sitja þar sem slíkur og þaðan af síður aukið við þjóðlega reisn !

Við getum ekki búið áfram við það verðleikafall sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir í þjóðlífinu með sívaxandi getuleysi sínu og takmarkalausum undirlægjuhætti sínum gagnvart erlendum áhrifavöldum. Það eru tuskur einar í stjórnarstólum hér !

Það á ekki að vera hlutverk íslenskra yfirvalda að draga niður allt sem gott er, íslenskt og þjóðlegt. Það er komið nóg af slíku. Burt með þessa óhæfu ríkisstjórn og það sem fyrst !

Nýjast

spot_img