Það kemur væntanlega ekki mörgum á óvart þegar fréttir berast af hryllingsverkum einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu. Hún leggur mikla áherslu á að halda þjóðinni niðri til að tryggja völd einræðisstjórnarinnar og skirrist ekki við að beita ofbeldi gagnvart þegnunum. Í nýrri skýrslu frá suðurkóreskum yfirvöldum kemur fram hversu lítið þarf til að Kim Jong-un, einræðisherra, láti taka þegna sína af lífi.
Fram kemur að fólk sé tekið af lífi fyrir vörslu og neyslu fíkniefna. Fyrir að deila fréttum frá Suður-Kóreu sem og fyrir að iðka trú sína eða trúa á yfirskilvitlega hluti.
Það er sameiningarráðuneyti Suður-Kóreu, sem sér um öll verkefni tengd samskiptum ríkjanna, sem vann þessa 450 síðna skýrslu sem byggist á viðtölum við rúmlega 500 Norður-kóreumenn sem flúðu land frá 2017 til 2022.
Í skýrslunni eru Norður-kóreumenn gagnrýndir fyrir brot á mannréttindum þegna sinna með beitingu dauðarefsinga. Segir að fólk sé tekið af lífi fyrir brot sem séu ekki svo alvarleg að réttlætanlegt sé að beita dauðarefsingu vegna þeirra.
Skýrslan er í takt við svipaðar skýrslur frá SÞ og mannréttindasamtökum.
Norður-kóreumenn vísa þessari gagnrýni á bug og segja að um hreinan uppspuna sé að ræða og sé þetta liður í tilraunum til að bola Kim Jong-un frá völdum.