Norrænir vísindamenn hafa ráðið elstu þekktu rúnirnar sem staðfesta að Norðurlandabúa trúðu á guðinn Óðinn mun fyrr en áður hefur verið talið. Rúnirnar eru á gulldiski sem var grafin upp í vesturhluta Danmerkur. The Guardian skýrir frá þessu og hefur eftir Lisbeth Imer, rúnafræðingi hjá danska þjóðminjasafninu, að þessi texti sé fyrsta haldgóða sönnunin fyrir því að Óðinn hafi verið tilbeðinn strax á fimmtu öld en það er að minnsta kosti 150 árum fyrr en áður var talið. Það mat byggðist á nælu sem fannst í suðurhluta Þýskalands og er talin vera frá miðri sjöttu öld.
Fyrrnefndur diskur, sem fannst 2020, var hluti af fjársjóði sem vó um eitt kíló, mestmegnis gull. Þar á meðal voru stórar medalíur á stærð við diska og rómversk mynt sem hafði verið breytt í skartgripi. Fjársjóðurinn fannst í Vindelev.
Sérfræðingar telja að hann hafi verið grafinn niður fyrir um 1.500 árum, annað hvort til að fela hann fyrir óvinum eða sem fórn til guðanna. Á gulldiskinum stendur: „Hann er maður Óðins“ og er þar líklega átt við óþekktan konung eða aðalsmann.
Imer sagði að rúnirnar væru einar þær best gerðu sem hún hefur séð.