2 C
Grindavik
15. janúar, 2021

Norska lögreglan rannsakar hegðun eftirmanns Lars

Skyldulesning

Ståle Solbakken byrjar ekki vel sem þjálfari norska landsliðsins sem hann tók við á dögunum.

Norska lögreglan íhugar að sekta Ståle Solbakken, nýráðinn þjálfara norska landsliðsins, eftir að hann virti ekki sóttvarnarreglur við komuna til landsins á dögunum.

Ståle var á áhorfendapöllunum á sunnudaginn er Ham-Kam og Íslendingaliðið Lillestrøm mættust í norsku B-deildinni en sonur Ståle leikur með fyrrnefnda liðinu.

Það var hins vegar bara átta dögum eftir að Ståle kom til landsins. Þjálfarinn hefur þar af leiðandi einungis verið átta daga í sóttkví en krafist er tíu daga sóttkví er mann kemur til Noregs.

„Við rannsökum hvort að það er grundvöllur að fara með málið lengra og mögulega gefa honum sekt,“ sagði yfirlögfræðingur lögreglunnar.

„Ef maður les VG eða Dagbladet þá er það nokkuð augljóst hvað hefur gerst og hann viðurkennir það, svo núna skoðum við hvort að við eigum að yfirheyra hann.“

Fyrrum þjálfari FCK hefur nú beðist afsökunar og segir að hann hafi ruglast á dögum.

„Eftir nánari talningu er þetta líklega rétt. Ég kom á laugardegi en ég hélt og trúði að ég hefði komið á föstudegi. Ég biðst afsökunar á þessu,“ sagði Ståle.

Samskiptastjóri norska knattspyrnusambandsins segir einnig að nú þegar Ståle hafi hafið störf hjá félaginu muni sambandið nú hjálpa honum að telja dagana, sé þess þörf.

„Ståle byrjar hjá okkur á mánudag [í gær] og við munum klárlega hjálpa honum að telja dagana í framtíðinni svo níu dagar eru níu dagar og tíu dagar eru tíu dagar,“ sagði Gro Tvedt Anderssen léttur.

Ståle er með samning í Noregi til ársins 2024 og er markmiðið að koma Noregi á HM í Katar 2022. Hann tók við liðinu af Lars Lagerback sem var rekinn.

Innlendar Fréttir