Í síðustu viku fékk norska tollgæslan ábendingu frá Þýskalandi um að áhugavert gæti verið að skoða banansendingu hjá innflutningsfyrirtækinu Bama. Norsku tollverðirnir fylgdu ábendingunni eftir og lögðu leið sína í húsakynni fyrirtækisins. Þar fundu þeir 820 kíló af kókaíni í bananakössum.
Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu og segir þetta mesta magn kókaíns sem hald hefur verið lagt á í einu máli í Noregi. Fyrra metið var 153 kíló.
Lögreglan segir að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins og að enginn grunur leiki á að starfsfólk Bama eigi hlut að máli. Hún útilokar ekki að stórir alþjóðlegir fíkniefnahringir tengist málinu.
Kókaínið var falið undir bönunum. Mynd: Norska tollgæslan Lögreglan vinnur út frá þeirri kenningu að kókaínið hafi verið sent til Noregs fyrir mistök.
Þýska lögreglan lagði hald á 1.200 kg af kókaíni í Brandenburg í síðustu viku. Var kókaínið falið innan um ávexti. Rannsókn málsins leiddi í ljós að svipuð sending hafði verið send til Noregs og því var norsku tollgæslunni gert viðvart.