8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Nova og naktar konur – „Það var núll kynferðislegt við þetta“

Skyldulesning

Sólrún Ósk Lárusdóttir og Elva Björk Ágústsdóttir skrifa:

„Er ekki bara gott fyrir fólk og börn að sjá alls konar líkama?” Þessari spurningu er varpað fram í nýjasta þætti Bodkastsins, sem er líkamsvirðingarvænt hlaðvarp.

Þar fjalla þær Sólrún Ósk Lárusdóttir og Elva Björk Ágústsdóttir meðal annars um nýjustu Nova auglýsinguna, matarvenjur í desember, fatakaup á netinu, einsleitar fyrirmyndir, fitusmánun fræga fólksins og hvernig líkamsmynd eða sjálfsmynd mótast og breytist. Tengill á nýjasta þáttinn er hér neðst.

Krúttleg gæludýr og lítil börn

Í Nova auglýsingunni sem vakti mikla athygli nýverið má sjá alls konar nakið fólk ganga, hjóla, dansa, synda og fleira.  Verið er að auglýsa snjallúr og er slagorðið „Allir úr”.

Það er ekkert nýtt að nekt sé notuð til að selja okkur eitthvað, en eins og Elva segir í þættinum: „Krúttleg gæludýr eða lítil börn eru notuð til að selja okkur klósettpappír… en á sama tíma erum við að nota kvenmannslíkamann til að selja gagnkynhneigðum körlum veiðistangir…alltaf á þennan kynferðislega máta, ekki á þennan ótrúlega hlutlausa máta… og Nova notaði líkama sem við myndum venjulega ekki sjá tengda við eitthvað til að selja gagnkynhneigðum karlmönnum”.

Verra en allt ofbeldið?

Samkvæmt Margréti Tryggvadóttur hjá Nova eru skilaboðin í auglýsingunni tvíþætt. Annars vegar er það úrið sjálf og allt sem það hefur upp á á bjóða og hins vegar tengjast skilaboð auglýsingarinnar glansmynd samfélagsmiðlanna og mikilvægi þess að sýna aðra mynd af fólki, fjölbreyttari, raunverulegri og líkamsvirðingarlegri.

Auglýsingin hefur þó verið umdeild og þurfti að ritskoða hana fyrir birtingu á samfélagsmiðlum en Sólrún bendir á að „Það var núll kynferðislegt við þetta… allt sem við sjáum daglega… allt þetta ofbeldi sem dynur á okkur… hvernig er þetta verra?” og Elva bætir við „Getur verið að við sem foreldrar finnst þetta vera að særa blygðunarkennd barna af því að við erum ekki vön þessu?”.

Sýnileikinn mikilvægur

Rannsóknir sýna að sýnileiki í fjölmiðlum og öðrum miðlum er gríðarlega mikilvægur. Sólrún bendir á í þættinum að það er „mikilvægt að sjá fjölbreyttar líkamsgerðir sem mótvægi við allt sem dynur á okkur”.

Einstaklingur sem sér einhvern sem líkist honum gera hitt og þetta fer að trúa því að hann geti það líka. Líkt og nefnt er í fræðum um sýnileika (representation): „If she can see it, she can be it”.

Við eyðum miklum tíma á samfélagsmiðlum og öðrum miðlum. Það sem við sjáum þar hefur áhrif á viðhorf okkar og skoðanir. Ef við sjáum mjög einhæft útlit þá getur það haft áhrif á hvernig við metum okkar eigið útlit.

Það að geta speglað sig í annarri manneskju, geta séð aðra manneskju, sem líkist okkur, sýnda á jákvæðan hátt á ljósvakamiðlum hefur jákvæð áhrif á líðan okkar. Nova auglýsingin er því gríðarlega mikilvæg auglýsing í líkamsvirðingarlegum skilningi.

Facebook Bodkastið – líkamsvirðingarvænt hlaðvarp

Instagram @bodkastid

Sjá einnig:

Nóg af nekt hjá Nova: Sjáðu auglýsinguna sem allir eru að tala um -„Verður umtalaðasta auglýsing sögunnar“

Innlendar Fréttir