5 C
Grindavik
2. mars, 2021

Nú þurfa Íslendingar að hafa tvær áskriftir til að sjá Meistaradeildina – Úrslitaleikurinn á Viaplay

Skyldulesning

Frá og með næstu leiktíð í Meistaradeild Evrópu þurfa Íslendingar að hafa tvær áskriftir til að geta fylgst með öllum leikjum Meistaradeildar Evrópu.

Viaplay og Stöð2 Sport munu skipta með sér réttinum af þessari stærstu íþróttadeild í heimi. Fyrirkomulagið er ekki óþekkt í hinum stóra heimi en Stöð2 Sport hefur átt réttinn hér heima síðustu ár.

„Viaplay/Nent Group hefur tryggt sýningarréttinn á meistaradeildinni í fótbolta, evrópudeildinni og nýrri Evrópukeppni til næstu 3 ára frá og með í sumar. Við deilum þessu til helminga með öðru fyrirtæki á Íslandi. Úrslitaleikurinn í meistaradeildinni á næsta tímabili verður á Viaplay. Spennandi tímar framundan enda á maður næstum því 20 ára minningar að lýsa frá stærstu keppni heims,“ skrifar Hörður Magnússon, íþróttalýsandi á Stöð2 Sport um málið. Hann greinir frá því að úrslitaleikurinn á næstu leiktíð verði á Viaplay.

Eiríkur Stefán Ásgeirsson, forstöðumaður Stöðvar 2 Sport hefur þetta að segja um málið „Það er ánægjulegt að ná að tryggja áframhaldandi útsendingar og innlenda þáttagerð tengdri Meistaradeildinni, Evrópudeildinni og svo spennandi nýjungar, Conference League, þar sem íslensk félagslið geta mögulega verið þátttakendur.“

„Samstarfið við Viaplay er í takt við þróun víða um heim þar sem algengt er að sýningarréttum sem þessum sé deilt. Stöð 2 Sport hefur útvíkkað ýmiskonar samstarf undanfarið og selur t.a.m. í dag aðgang að NFL Game Pass á frábæru verði og fljótlega mun samskonar samstarfi við NBA vegna NBA League Pass verða ýtt úr vör. Þessu fylgir svo fjölbreytt innlend dagskrárgerð í ýmsu formi tengdum útsendingum.“

Innlendar Fréttir