Nýkominn úr slipp:„Maður er bara í áfalli“

0
103

Til vinstri má sjá Þrist við Njarðvíkurhöfn og til hægri við Sandgerðishöfn í dag. Ljósmynd/Aðsend, Ljósmynd/Reynir Sveinsson.

Eigendur bátsins Þristar sem kviknaði í laust fyrir miðnætti í nótt við Sandgerðishöfn segjast í miklu áfalli eftir brunann, þeir skilji í raun ekki hvernig kviknað hafi í bátnum. Mikil heppni sé að enginn hafi slasast í brunanum en annar eigandinn, sem er skipstjóri bátsins, hélt til í bátnum á meðan verið var að laga hann.

Ómar Hafsteinn Matthíasson og Hafþór Torfason festu kaup á Þrist í janúar síðastliðnum af Hafnarnes VER í Þorlákshöfn. Báturinn fór í slipp í febrúar en eigendurnir nýju tóku svo við honum í mars og hafa verið að vinna í honum síðan þá. Hafþór hefur meira að segja haldið til í bátnum, á meðan að á viðgerðum stóð.

Báturinn var ný orðinn tilbúinn fyrir veiði þegar eldurinn kviknaði.

„Þetta er bara alveg skelfilegt. Við erum búnir að vera að vinna í bátnum núna í tvo mánuði og loksins farnir að sjá fyrir endann á því og komast á veiðar. Við vorum á leiðinni á veiðar núna í komandi viku, maður nær bara ekki orðum um þetta,“ segir Hafþór í samtali við mbl.is.

Ómar, sem er tengdafaðir Hafþórs, segist ekki skilja hvernig kviknað hafi í bátnum en á laugardagsmorgun hafi þeir ætlað að fara til veiðar frá Hafnarfirði út á sandvíkina út af Höfnum nær Reykjanesi. Þeir hafi haldið af stað eldsnemma um morguninn.

Dofinir og daprir eftir bátsbrunann Á leiðinni bilar sjálfstýring bátsins og styttra var að fara með bátinn í Sandgerði en aftur í Hafnarfjörð svo þangað var haldið. Ómar segir þá síðan hafa gengið frá bátnum og farið heim að hvíla sig. Báturinn hafi komið að Sandgerði á milli klukkan 09 og 10 á laugardagsmorgun.

„Ég skil ekki, það er engin ljósavél, engin aðalvél, ekkert í gangi. Það er ekki einu sinni kælipressa í gangi fyrir lestina, það er ekkert, það er ekkert rafmagnstengt í gangi,“ segir Ómar dofinn.  

Héldu að bruninn væri yfirstíganlegur í fyrstu Mennirnir fengu svo hringingu í nótt þess efnis að mikill reykur kæmi frá bátnum. Þeir voru bjartsýnir um það að einungis þyrfti að skipta um rafmagnstöflu og laga bátinn lítillega.

„Maður er bara í áfalli og skilur þetta ekki. Þetta er ekki alveg orðið raunverulegt enn þá. […] Maður var á nálum í nótt þegar þeir hringdu, svo leit þetta út fyrir að hafa bara verið niðri í þessari töflu, það hefði verið lítill eldur en mikill reykur. Maður svona hélt að þetta væri nú bara yfirstíganlegt, þetta væri bara nýtt verkefni en svo fæ ég bara hringingu frá kunningja mínum klukkan níu í morgun um það að báturinn sé bara aftur orðinn alelda. Þá vissi maður nú bara ekki alveg hvað væri í gangi. Þetta er bara hryllingur,“ segir Hafþór.

Kviknaði í eftir fyrstu prufu Hafþór og Ómari þykir líklegt að um altjón sé að ræða. Þá hafi mikið af nýjum búnaði verið um borð sem þeir hafi verið nýbúnir að kaupa.

„Maður er búinn að eyða þvílíkum tíma í að gera hann kláran og svo akkúrat þegar maður er kominn með hann suður eftir og er bara á leiðinni á veiðar þá gerist eitthvað svona. Þetta er bara virkilega leiðinlegt og dapurt,“ segir Hafþór. 

Eldur kviknaði í Þrist laust fyrir miðnætti í gær. Mikið slökkvistarf var á vettvangi og var allt talið eðlilegt um klukkan sjö í morgun þrátt fyrir mikinn reyk. Klukkan níu var báturinn orðinn alelda.