10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Nýr stigabíll til slökkviliðsins á Akureyri

Skyldulesning

Maron Pétursson er deildarstjóri slökkviliðsins á Akureyri.

Maron Pétursson er deildarstjóri slökkviliðsins á Akureyri. mbl.is/Margrét Þóra

Slökkviliðið á Akureyri hefur fengið nýjan björgunarstigabíl sem leysir af hólmi eldri körfubíl sem er frá árinu 1989. Stigabíllinn er af gerðinni Scania, stiginn og yfirbyggingin var smíðuð í Frakklandi og eru fulltrúar seljenda bílsins væntanlegir til Akureyrar þar sem kenna á nokkrum liðsmönnum á bílinn. Þeir munu í kjölfarið miðla af þekkingu sinni til allra annarra starfsmanna slökkviliðsins.

Maron Pétursson, deildarstjóri hjá slökkviliðinu á Akureyri, segir að með tilkomu nýja bílsins verði gríðarleg breyting til hins betra þegar kemur að björgunarstörfum. Nýi bíllinn er búinn margvíslegum nútímaþægindum sem þann gamla skortir. Það flýtir fyrir öllum ferlum og auðveldar störf hvort heldur er unnið við að bjarga mannslífum eða verðmætum.

Hann segir eldri bílinn ekki henta lengur, víða hátti þannig til á Akureyri að götur séu þröngar og erfitt að komast um á svifaseinum bíl. Farið var að ræða um bílaskipti fyrir sjö árum, en tímamót urðu í október árið 2020 þegar skrifað var undir samning um kaup á Scania-bílnum. „Það hafa svo eins og gengur á tímum heimsfaraldurs orðið tafir á afhendingu, en loks er bíllinn kominn norður og má segja að langþráður draumur okkar hafi ræst,“ segir Maron.

Veitir mikið öryggi

Stigabíllinn kemst 32 metra upp í loft í beinni stöðu og við bætast tveir metrar, frá jörðu og upp í stiga. Hitamyndavél er í bílnum sem gerir að verkum að menn eru fljótari að greina hvar mestur hiti er í brennandi byggingum, það flýti mjög fyrir öllu björgunarstarfi að sögn Marons. Þá nýtist bíllinn við fleira en útköll vegna elds. Hann segir að ekki síður sé horft til björgunarstarfa í tengslum við umferðarslys, m.a. þegar bílar lenda utan vega. Þá er hægt að nýta bílinn til að sækja slasað fólk og ferja það í körfunni að sjúkrabíl í stað þess að ganga með það langar leiðir. „Þessi bíll veitir okkur öllum íbúum bæjarins mikið öryggi og við fögnum því innilega að hafa fengið hann til afnota,“ segir Maron.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir