Nýtt afbrigði COVID-19 og grímuskyldu komið aftur á – DV

0
98

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) er sögð fylgjast grannt með nýju afbrigði kórónuveirunnar, XBB.1.16, sem fengið hefur viðurnefnið Arktúrus. Fjöldi tilfella hefur greinst í Indlandi að undanförnu.

Breska ríkisútvarpið greindi frá því á mánudag að um sé að ræða undirafbrigði ómíkrón-afbrigðisins sem olli talsverðum usla veturinn 2021 til 2022.

COVID-tilfellum hefur farið fækkandi á heimsvísu undanfarna mánuði, en undanfarnar vikur hefur þeim aftur fjölgað á Indlandi og eru heilbrigðisyfirvöld sögð fylgjast grannt með gangi mála, meðal annars með tilliti til getu sjúkrahúsa til að taka á móti sjúklingum..

Á sunnudag greindust sex þúsund ný tilfelli í Indlandi og voru virk smit þá 35 þúsund. Í dag eru virk smit komin yfir 40 þúsund.

Ekki er talið að þetta afbrigði sé hættulegra en önnur afbrigði veirunnar en hæfileiki þess til að dreifa sér virðist aftur á móti mikill.

Vegna aukinnar útbreiðslu hefur grímuskyldu verið komið á í nokkrum héröðum Indlands en um ár er síðan grímuskylda var síðast í gildi á umræddum svæðum.

Hér að neðan má sjá graf sem sýnir fjölgun smita á Indlandi undanfarna mánuði: