2 C
Grindavik
24. nóvember, 2020

Nýtt bóluefni frá Moderna sagt veita 95% vernd gegn veirunni

Skyldulesning

Bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna tilkynnti rétt í þessu að nýtt bóluefni þess veitti 95% vörn gegn veirunni. Tilkynningin kemur í kjölfar tilkynningar Pfizer frá því í síðustu viku. Þar sagði Pfizer að bóluefni sitt veitti vörn í 90% tilfella. Við þær fréttir tóku hlutabréfamarkaðir við sér og hækkuðu hlutabréfaverð flugfélaga og olíuverð á heimsmörkuðum um tugi prósenta.

Segir Moderna í tilkynningu sinni að fyrirtækið hyggst sækja um leyfi fyrir lyfinu á allra næstu dögum.

Lyfið er svokallað mRNA lyf, sem bóluefnið frá Pfizer er líka. Það má því gera ráð fyrir því sömu vandamálum tengdum flutningi og dreifingu lyfsins og blasa nú við Pfizer. Stafar sá vandi af því að flytja þarf lyfið við -80°C. Kári Stefánsson sagði í viðtali við DV í síðustu viku, það vera vegna þess að RNA efni eru óstöðug og krefjast þess vegna þessa mikla frosts. Þó segir í frétt BBC að bóluefni Moderna sé stöðugt við -20°C í allt að sex mánuði, og í hefðbundnum frysti reynist það stöðugt í um einn mánuð.

30 þúsund manns tóku þátt í tilrauninni. Helmingur þeirra fékk bóluefnið og hinn fékk lyfleysu. Af þeim 30 þúsund sem tóku þátt smituðust 95 af Covid-19 og höfðu aðeins 5 af þeim fengið bóluefnið en 90 lyfleysu. Það eru 94.5%.

„Heildaráhrif bóluefnisins hafa verið stórkostlegar… þetta er frábær dagur,“ sagði Tal Zaks, yfirlæknir Moderna við BBC í dag. 

BBC segir jafnframt frá því að tímalengd ónæmis liggi ekki fyrir og niðurstöður úr rannsóknum hugsanlegra aukaáhrifa eru ekki langt á veg komnar. Þó segir BBC frá því að þreyta til skamms tíma, höfuðverkir og beinverkir séu á meðal þeirra aukaverkana sem liggja fyrir. Ríma þær frásagnir vel við lýsingar af aukaverkunum Pfizer bóluefnisins. Peter Openshaw, prófessor við Imperial College í London segir að búast megi við þessum aukaáhrifum af bóluefni sem veiti gott ónæmissvar.

Innlendar Fréttir