7 C
Grindavik
2. mars, 2021

Obama, Bush og Clinton bjóðast til að láta bólusetja sig opinberlega – Vilja sýna að bóluefnið er öruggt

Skyldulesning

Barack Obama, George W. Bush og Bill Clinton, sem allir hafa gegnt embætti forseta Bandaríkjanna, hafa boðist til að láta bólusetja sig opinberlega gegn kórónuveirunni, sem veldur COVID-19, til að sýna almenningi að bóluefnið sé öruggt.

Þeir eru reiðubúnir til að gera þetta í beinni útsendingu um leið og bandaríska lyfjastofnunin hefur heimilað notkun bóluefnis. CNN skýrir frá þessu.

Fram kemur að forsetarnir þrír vonist til að þetta verði til að styrkja trú almennings á öryggi bóluefnisins og virkni þess. Þeir vonast til að það að þeir láti bólusetja sig í beinni útsendingu verði sterk skilaboð til þjóðarinnar en ákveðinna efasemda gætir meðal margra um bóluefni gegn kórónuveirunni og vinna heilbrigðisyfirvöld hörðum höndum að því að sannfæra fólk um að láta bólusetja sig.

Það var George W. Bush sem fyrstur viðraði hugmyndina og ræddi hana meðal annars við Anthony Fauci, forstjóra bandarísku smitsjúkdómastofnunarinnar, og Deborah Birx, sem samhæfir aðgerðir Hvíta hússins við faraldrinum. Talsmaður Clinton sagði CNN í gær að hann væri reiðubúinn til að gera það sama og Bush og láta bólusetja sig í beinni útsendingu ef það gæti orðið til þess að hvetja samlanda hans til að láta bólusetja sig.

Obama var í viðtali í SiriusXM í gær og ræddi þar við Joe Madison. Obama sagði að ef Fauci segi að bóluefnið sé öruggt þá trúi hann honum. „Ég lofa ykkur því að þegar bóluefnið verður í boði fyrir þá sem eru í lítilli áhættu þá mun ég láta bólusetja mig. Kannski geri ég það fyrir framan myndavélar þannig að fólk sjái að ég treysti vísindunum og vilji ekki fá COVID-19.“

Innlendar Fréttir