5 C
Grindavik
27. febrúar, 2021

Ófærð víða um land

Skyldulesning

Vetrarfærð er á landinu og slæmt ferðaveður víða. Margir vegir eru ýmist lokaðir eða ófærir á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi og er varað við því að vera á ferðinni.

Lokað er á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði vegna óveðurs og ófært á Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Þungfært er í Álftafirði. Hálka, snjór eða jafnvel þæfingur á vegum á Vesturlandi, skafrenningur og víða mjög hvasst.

Á Vestfjörðum eru Þröskuldar, Klettsháls og Steingrímsfjarðarheiði lokaðar vegna óveðurs og á Súðavíkurhlíð er óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu.

Á Norðurlandi er verið að kanna aðstæður á vegum en þær eru víða mjög erfiðar, hvassviðri og blint. Víða eru vegir lokaðir eða ófærir en þungfært er milli á Sauðárkróks og Hofsóss og þæfingsfærð þar norður af. Þæfingur er einnig í Öxnadal og á Ólafsfjarðarvegi. 

Vegurinn um Vatnsskarð, Þverárfjall, Sauðárkróksbraut, Öxnadalsheiði og Víkurskarð er lokaður vegna óveðurs. Vegurinn um Almenninga er ófær vegna veðurs en þar er einnig í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu. Ólafsfjarðarmúli er lokaður vegna snjóflóðahættu. 

Vetrarfærð er á vegum á Norðausturlandi, hvasst, éljagangur og skafrenningur. Ófært er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði. 

Á Austurlandi er þæfingsfærð og stórhríð er á Fjarðarheiði en ófært yfir Fagradal. Hálka og snjóþekja er víða, snjókoma er á Út-Héraði og víða allhvasst. Öxi er lokuð og Breiðdalsheiði ófær. Það er greiðfært frá Höfn að Öræfasveit en þar fyrir vestan eru hálkublettir en víða er allhvasst. Hálka eða hálkublettir víða á útvegum á Suðurlandi og á Hringvegi austan Hvolsvallar. Á Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir nokkuð víða. 

Innlendar Fréttir