Öflugasti gammageisli sögunnar – DV

0
112

Þann 8. október á síðasta ári var eins og hver annar dagur, að því er virtist. Geimfarið Voyager 1, sem var skotið á loft 1977, hélt áfram för sinni frá sólkerfinu okkar. Það er langt utan við braut Plútó og það tekur skilaboð frá því 20 klukkustundir að berast til jarðarinnar. Skyndilega greindu mælitæki geimfarsins gríðarlega mikla geislun. Skilaboð voru strax send til jarðarinnar um þetta en þau voru 20 klukkustundir að berast.

Það sem Voyager mældi var fyrsta mælingin á því sem fékk síðar viðurnefnið GRB 221009A sem er öflugasti gammageislinn sem sögur fara af. Videnskab skýrir frá þessu.

Fjöldi gervihnatta er á braut um jörðina til að fylgjast með því sem gerist í geimnum. Einn þeirra er Fermi-gervihnötturinn. Hann var sá fyrsti sem uppgötvaði geislunina.

Fljótlega áttuðu vísindamenn sig á að hér var ekki bara um venjulegan gammageisla að ræða, hann var svo öflugur að hann fékk viðurnefnið BOAT sem er styttinga á „Brightest of All Time“.

Geislinn reyndist vera í rúmlega tveggja milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni en hann er samt meðal þeirra sem mælst hafa næst okkur.

En auk fjarlægðarinnar frá jörðu var hægt að reikna þá orku sem losnaði úr læðingi í geislanum. Á þeim 290 sekúndum sem hann varði losnaði um 1.000 sinnum meiri orka úr læðingi en sólin okkar hefur sent frá sér á þeim 4,5 milljörðum ára sem hún hefur lifað.

Til að sýna enn betur fram á orkuna í gammageislanum þá er hægt að benda á að í skamma stund sendi hann meiri birtu frá sér en mörg hundruð milljarðar stjarna í vetrarbrautinni okkar gera til samans.