-1 C
Grindavik
21. janúar, 2021

Ögmundur út að aka.

Skyldulesning

Hefur ekki þá afsökun að vera dópaður.

Aðeins af gamla skólanum, skilur ekki að Ólöf Nordal setti lög sem girti fyrir geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna varðandi skipun dómara, einstaklingar sem sækjast eftir dómaraembættum þurfa sýna fram á að þeir hafi áunnið sér hnossið með störfum sínum og menntun.

En ekki pólitískum tengslum.

Alveg eins og aðrir sem sækja um störf á vegum ríkisins.

Sigríður Andersen gat ekki rökstutt af hverju hún tók 4 einstaklinga út af lista hæfnisnefndar, og afhverju hún bætti þeim fjórum sem ekki voru á listanum inn.

Auk þess að brjóta lögin þar um, þá leikur vafi á trúverðugleik viðkomandi einstaklinga sem hún skipaði.

Ganga þeir erinda ákveðinna hagsmuna, tilheyra þeir einhverju leynifélagi, keyptu þeir embættið og svo framvegis??

Ekkert af þessu vægast sagt líklegt, en á meðan er ekki farið á eftir lögum, og geðþótti ræður för, þá er vafi, og við þann vafa er ekki unað.

Það er í raun ótrúlegt að maður sem hefur verið þingmaður í öll þessi ár, skuli ekki ennþá skilja að tími hins pólitíska geðþótta er liðinn.

Þjóðin vill gegnsæi og að leikreglur séu virtar.

Hvað þá að Ögmundur láti það út úr sér að Alþingi geti upp á sitt eigið einsdæmi sniðgengið lög, að samþykkt þess sé æðri lögum þjóðarinnar.

Eins og hann hafi ekki öll þessi ár frétt að uni menn ekki lögum, þá breyta þeir þeim, en brjóta þau ekki.

Vissulega var þetta liðið á árum áður, en það er liðið enda stjórnvöld ítrekað dæmd brotleg í hinum og þessum málum, sem og að Alþingi hefur verið gert að taka upp sum lög sín sem stangast á við aðra lagasetningu, Ögmundur var til dæmis ráðherra í einni ríkisstjórn sem var gerð brottræk með lög sín um útreikninga vaxta á fyrrum ólöglegu gengislánum.

Dómskerfið er nefnilega farið að dæma sjálfstætt, það er eftir lögum en ekki vilja framkvæmdarvaldsins.

Svona er bara nútíminn og fáránlegt að leika sig eitthvað nátttröll, og þykjast ekkert skilja í breyttum tíðaranda.

Síðan er það ómerkilegt að hjóla í MDE á þeim forsendum að hann eigi ekki að dæma í svona málum því það séu önnur verri þarna úti.

Hvers eigum við sem þjóð að gjalda að hafa stjórnmálamenningu sem telur sig hafna yfir lög??

Á bara að taka verstu bandítana og láta öll önnur brot eiga sig.

Og hvað innilega heimska er þetta að halda að málið fyrir MDE snúist um einhvern dópaðan mann á hjóli??

Málið snérist fyrst og síðast um rétt okkar sem þjóðar að fá að lifa í friði fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem telja sig ríki í ríkinu, í stað þess að vera hluti af þjóðinni, deila með henni kjörum sínum og RÉTTLÆTI.

Heitir þetta ekki ein lög fyrir alla.

Síðan ætti Ögmundur Jónasson að vita og muna, að öll mannréttindabrot eiga sér eitt upphaf.

Að stjórnvöld telji sig ekki þurfa að lúta leikreglum réttarríkisins.

Og fyrsta skref hinna brotlegu eru alltaf að ná tökum á dómskerfinu.

Ítalía Mússólínis, Þýskaland Hitlers, Tyrkland Erdogans, að ekki sé minnst á Sovétið sem engin mannréttindi virtu.

Enda fyrsta verk hinna nýfrjálsu þjóða Austur Evrópu að ganga í Evrópuráðið og gangast undir lögsögu MDE.

Því þar vissu menn á eigin skinni hvað það var að hafa valdhafa sem virtu ekki mannréttindi.

Eiginlega á Ögmundur bara bágt þessa dagana.

Hann er ekki að gera þjáðum Tyrkjum gagn með því að ráðast á MDE á þeim forsendum að hann eigi ekki að sinna öðrum en stórbrota þjóðum.

Dómurinn hlýtur að vera allra.

Annars er hann ekki hlutverki sínu vaxinn.

Sem er draumastaða böðlanna sem geta þá alfarið hundsað hann.

Stundum eiga menn að hugsa áður en þeir tala.

Þó það sé gaman að vera slegið upp í Mogganum.

Það er blettur á stjórnmálamenningu okkar og framkvæmdarvaldi að það skuli hafa vogað sér að gera sem það gerði í Landsréttarmálinu.

Og svartur blettur að það skuli hafa þurft dóm að utan til að leiðrétta þá ósvinnu.

Vilji menn ekki slík afskipti, þá skulu menn virða sín eigin lög.

Í stað þess að hrópa eins og frekur krakki, ég má, ég má, ég á, ég má.

Það er tími til kominn að þroskast.

Því sá tími er liðinn.

Og við búum í betra samfélagi á eftir.

Kveðja að austan.


Innlendar Fréttir