-2 C
Grindavik
23. janúar, 2021

Óhugnanlegt myndband – Var að taka upp fyrir TikTok þegar maður braust inn

Skyldulesning

Hannah Viverette var að dansa heima í stofunni sinni í Maryland, Bandaríkjunum. Hún var að taka upp myndband fyrir TikTok þegar ókunnugur karlmaður opnaði svalahurðina hennar.

Hannah deildi myndbandinu á TikTok og hefur það vakið gífurlega athygli. Það hefur fengið yfir 43 milljón áhorf og rúmlega níu milljón manns líkað við það. Inside Edition fjallaði um málið og ræddi við Hönnuh.

Í myndbandinu má sjá Hönnuh dansa og síðan heyrist einhver opna hurð og hún spyr samstundis: „Hver ert þú?“

Hún biður manninn síðan um að fara. Maðurinn var klæddur hettupeysu og stóð í hurðagættinni, samkvæmt Hönnuh var hann með hendurnar í vasanum og brosti til hennar.

Í samtali við Inside Edition sagði Hannah að hún hafi strax kannast við manninn, hún þekkti hann ekki en hafði séð hann margsinnis í kringum heimili sitt.

Hannah sagði að maðurinn hafi spurt hana hvort hún væri vinur hans og hún hafi svarað neitandi. Hann á þá að hafa spurt hvort hún væri viss. Á þeim tímapunkti krefst Hannah þess að maðurinn fari.

Það er búið að bera kennsl á manninn sem Angel Moises Rodriguez-Gomez. Hann hefur verið ákærður fyrir ýmis brot, meðal annars umsátureinelti (e. stalking), innbrot og líkamsárás. Hann er laus úr gæsluvarðhaldi samkvæmt WDVM.

Hannah gistir ekki heima hjá sér eftir að hún komst að því að Angel Moises væri frjáls ferða sinna.

„Mér finnst það ekki sanngjarnt að hann sé frjáls ferða sinna núna, og ég þarf stöðugt að vera að líta í kringum mig,“ segir hún.

Innlendar Fréttir