1 C
Grindavik
18. janúar, 2021

Óljóst hvenær Víðir snýr aftur

Skyldulesning

Víðir Reynisson.

Víðir Reynisson.

Ljósmynd/Lögreglan

„Ég heyrði í honum í gær og þá var hann ögn skárri en í fyrradag. Hann var náttúrlega kallaður inn í fyrradag þar sem vökva var dælt í hann og fleira,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um líðan Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns. 

Víðir greindist með kórónuveirusmit fyrir ellefu dögum. Frá þeim tíma hefur líðan hans verið misjöfn. Veikindin fóru versnandi þegar vika var liðin frá smiti en hafa verið stöðug undanfarið. 

Tekur tíma að jafna sig

Aðspurður segir Rögnvaldur að líðan Víðis hafi verið betri í gær en í fyrradag. „Honum leið aðeins betur í gær en hann er samt svona á svipuðum stað. Þetta er í lungunum á honum. Það er bara leiðinlegt.“

Að hans sögn er óljóst hvenær Víðir snýr aftur. Þá geti það tekið talsverðan tíma sökum alvarleika veikindanna. „Ég er ekki alveg viss hvernig það verður. Það tefur töluvert fyrir að þetta skuli vera komið í lungun. Það tekur hann örugglega lengri tíma en fyrir þá sem sleppa betur.“ 

Veik­indi Víðis eru ekki tal­in lífs­hættu­leg. 

Innlendar Fréttir