Olnbogarnir sem hafa komið Drungilas í kast við körfuboltalögin – Vísir

0
120

Olnbogarnir sem hafa komið Drungilas í kast við körfuboltalögin Allra augu í Síkinu í kvöld verða eflaust á Adomas Drungilas þegar Tindastóll tekur á móti Val í öðrum leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.

Drungilas hefur verið mikið milli tannanna á fólki eftir að hann sló til Kristófers Acox í fyrsta leik Vals og Tindastóls á laugardaginn. 

Dómarar leiksins skoðuðu atvikið á myndbandi og gáfu síðan Drungilas óíþróttamannslega villu. Dómaranefnd KKÍ vísaði atvikinu hins vegar til aga- og úrskurðarnefndar sem ákvað að aðhafast ekkert í málinu. Drungilas slapp því við bann og getur tekið þátt í leiknum í kvöld.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Drungilas kemst í kast við körfuboltalögin þau tvö tímabil sem hann hefur leikið hér á landi. Samtals hefur hann verið dæmdur í sjö leikja bann.

Í mars 2021 var Drungilas dæmdur í eins leiks bann fyrir að slá til Breka Gylfasonar, leikmanns Hauka í leik gegn Þór Þ. í 14. umferð Subway-deildarinnar.

Seinna í sama mánuði fékk Drungilas tveggja leikja bann fyrir að gefa Stjörnumanninum Mirza Saralilja olnbogaskot. 

Klippa: Olnbogaskot Drungilas

Tveimur mánuðum síðar var Drungilas úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir að gefa Guy Edi, leikmanni Þórs frá Akureyri, olnbogaskot í Þórsslag í Þorlákshöfn. Fyrir vikið missti hann af fyrstu þremur leikjum Þórs í úrslitakeppninni. Drungilas varð Íslandsmeistari með Þór vorið 2021 og var valinn besti leikmaður lokaúrslitanna. 

Drungilas sneri aftur til Íslands í fyrra og gekk í raðir Tindastóls. Og í 1. umferð Subway-deildarinnar á þessu tímabili mætti hann Keflavík og Dominykas Milka en þeir elduðu grátt silfur í úrslitunum 2021.

Í leik Keflavíkur og Tindastóls í byrjun október var Drungilas hent út úr húsi fyrir að gefa Milka olnbogaskot. Í kjölfarið var hann dæmdur í eins leiks bann.

Leikur Tindastóls og Vals hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Subway Körfuboltakvölds hefst klukkan 18:30.