10.3 C
Grindavik
16. september, 2021

Ólympíuleikarnir: klæðaburður/hárgreiðsla með meiru

Skyldulesning

Ég hef ekki verið dyggur áhorfandi Ólympíuleika eða stórra íþróttamóta í gegnum tíðina. Ég man aðallega þegar Sergei Bubka stökk hærra og hærra á níunda áratugnum og smávegis eftir Carl Lewis, kannski af því að pabbi fylgdist vel með, sá gamli glímukappi.

En ég man þegar Jón Arnar Magnússon málaði skeggið á sér í fánalitunum. Ég þurfti reyndar að fletta upp að það hefði verið 1996. Núna er ég búin að horfa frekar mikið á Ólympíuleikana, þá fyrstu eftir að pabbi dó, og ég tek eftir tvennu sem mér finnst hafa breyst: hárið á glettilega mörgum keppendum er úti um allt og sumt í dreddum þótt það sé svo sem ekki í neinum fánalitum og kúluvarparar/kringlukastarar eru ekki eins miklir beljakar og mér finnst þau hafa verið. Já, og núna meðan ég er að fylgjast með spretthlaupi kvenna sé ég að töluvert margar eru húðflúraðar.

Ég byrjaði í hlaupahóp fyrir sjö árum og hef nú mætt í fleiri keppnishlaup en öll árin þar á undan. Keppnisnúmerin þykja mér óþægileg, fest með fjórum nælum framan á bolinn og vindurinn rífur í þau. Þess vegna finnst mér skrýtið að sjá að í Tókíó eru númerin og nöfnin fest svona lauslega á keppendur.

Að lokum: Ég heyrði Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson fallbeygja Kanada eins og kvenkyns væri og verð að segja að lýsingarnar bæta óendanlega miklu við áhorfið. Hreinasta skemmtiefni … og kveikið núna ef þið eruð ekki búin að því! smile


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir