8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Opið bréf til Lilju Al­freðs­dóttur um að­gengi tíðar­vara í grunn- og fram­halds­skólum

SkyldulesningHekla Rist, Anna María Allawawi Sonde, Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir og Saga María Sæþórsdóttir skrifa

Kæra Lilja Dögg.

Við heitum Anna (14 ára nemandi við Langholtsskóla), Saga (15 ára nemandi við Langholtsskóla), Gunnhildur (18 ára nemandi við Harvard) og Hekla (18 ára nemandi við Menntaskólann við Sund), og erum 4 ungar stelpur sem höfum verið að fylgjast með umræðum um niðurgreiðslur á tíðavörum á Alþingi og vorum mjög vonsviknar þegar við fréttum það að tillögur um aðgengi að gjaldfrjálsum tíðarvörum hafi verið felldar aðeins með einu atkvæði í 2. umræðu fjárlaga, sérstaklega í ljósi þess að nágrannaland okkar, Skotland, var að samþykkja slíka tillögu og ungmenni þar farin að njóta fullu og jöfnu aðgengi að tíðarvörum. 

Það að ungt fólk og láglaunafólk hafi aðgengi að tíðarvörum er okkar hjartans mál, og höfum við verið að vekja athygli á því á samfélagsmiðlum þar á meðal, Instagram með reikningnum @bleikframtid og á TikTok þar sem tugir þúsunda ungmenna hafa verið að ræða málið um aðgengi á tíðarvörum. Það er ljóst að ungu fólki finnst að því ætti ekki að vera mismunað á því hvort manneskja sé með leg eða ekki, og eru sammála um að allir ættu að fá sama aðgengi að tíðarvörum og klósettpappír.

Við erum því að vonast til þess að þú getir tekið málið upp við fjárlaganefnd og hjálpað nefndinni að útfæra hugmyndir Andrés Inga fyrir fólk í grunn- og framhaldsskólum áður en þingið klárar fjárlög fyrir næsta ár. Þannig getur þú tryggt að strax á næsta ári sitji fólk við sama borð óháð búsetu og fjárhagsstöðu sveitafélags hvað varðar aðgengi að tíðarvörum, og að vörurnar uppfylli gæða- og umhverfiskröfur, en séu líka ódýrar því væntanleg eru stórkaup á þessum vörum. Aðgengi tíðarvara er flókið mál, en með því að byrja á því að gera tíðarvörur jafn aðgengilegar og klósettpappír í grunn- og framhaldsskólum erum við að taka fyrsta skrefið í mikilvægri baráttu fyrir aðgengi að tíðarvörum.

Því biðjum við þig Lilja um að ganga í þetta mál og sýna fordæmi á norðurlöndunum hvað varðar aðgengi að tíðarvörum. Við vitum að þingið hefur stuttan tíma til þess að ganga frá þessu, en við vitum að þú skilur hversu gríðarlega mikilvægt þetta er fyrir þúsundir ungs fólks. Gangi þér vel Lilja, við bíðum spennt eftir næsta skrefi í jafnréttisbaráttunni.

Kær kveðja,

Anna María Allawawi Sonde

Hekla Rist

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir

Saga María Sæþórsdóttir

Og þau fjölmörgu ungmenni sem hafa aðstoðað okkur í baráttunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Innlendar Fréttir