-1 C
Grindavik
25. nóvember, 2020

Opna skuli samfélagið upp á gátt

Skyldulesning

Sigríður Á. Andersen spjallaði við Martin Kulldorff í dag.

Sigríður Á. Andersen spjallaði við Martin Kulldorff í dag.

mbl.is/Eggert

Sigríður Á. Andersen þingmaður hélt í dag opinn fjarfund þar sem rætt var við dr. Martin Kulldorff, sem er einn þriggja höfunda Barrington-yfirlýsingarinnar svokölluðu.

Barrington-yfirlýsingin, sem skrifuð var af þremur leiðandi heilbrigðissérfræðingum, er stutt plagg sem hvetur til þess sem kallað er „focused protection“ en það mætti þýða sem „hnitmiðaðar sóttvarnaaðgerðir“.

Í því felst að samkomu- og útgöngubanni, og öðrum skyldubundnum takmörkunum á athöfnum og starfsemi manna, verði hætt, en í stað þeirra muni hver einstaklingur velja það persónulega hvernig hann hagar sínum sóttvarnaráðstöfunum. Þetta þýðir í raun að samfélagið er opnað upp á gátt fyrir þá sem það kjósa.

Dr. Martin Kulldorff

Dr. Martin Kulldorff

Ætti að klárast á þremur til fjórum mánuðum

Höfundar yfirlýsingannar viðurkenna að sé henni fylgt muni fleira fólk smitast af kórónuveirunni en ella, en það muni leiða til hjarðónæmis sem verður þá til þess að minni líkur séu á því að fólk í áhættuhópum muni komast í tæri við veiruna.

Á fundinum, sem dr. Jón Ívar Ein­ars­son prófessor og Þor­steinn Sig­laugs­son hagfræðingur sátu einnig, hélt Kulldorff því fram að opna ætti skóla á öllum stigum, þ.m.t. háskóla, og að veitingastarfsemi og hópamyndun ætti að vera leyfð á ný fyrir þá sem ekki eru í áhættuhópum.

Hann lagði sérstaka áherslu á frelsi barna og að ekki ætti að hamla því að neinu leyti, þ.e. tveggja metra regla ætti ekki að eiga við um þau og öll íþróttastarfsemi þeirra ætti að vera með venjubundnu sniði, nema þau sýndu veikindaeinkenni.

Þá hélt hann því fram að faraldurinn ætti að klárast á þremur til fjórum mánuðum, eða sex mánuðum í það mesta, ef þeim aðgerðum sem yfirlýsingin mælir með verði fylgt.

Upptöku af fundinum má nálgast hér.

Innlendar Fréttir