0 C
Grindavik
24. febrúar, 2021

Óréttmætt að þvinga fólk í viðskipti

Skyldulesning

Fjármálaráðuneytið.

Hagsmunasamtök heimilanna segja með öllu óréttmætt að þvinga neytendur í viðskipti við einkafyrirtæki í einokunarstöðu. Vísa samtökin þar til rafrænnar þjónustu á vefnum island.is. Er þetta meðal þess sem fram kemur í umsögn samtakanna um frumvarp um stafrænt pósthólf. 

Að því er fram kemur í frumvarpinu verða allar póstsendingar ríkisins stafrænar árið 2025. Gert er ráð fyr­ir að rík­is­sjóður spari 300–700 millj­ón­ir króna ár­lega með breyt­ing­unni. Kostnaður rík­is­ins í póst­b­urðar­gjöld er nú um 439 millj­ón­ir króna á ári, en auk póst­b­urðar­gjalda er gert ráð fyr­ir sparnaði við um­sýslu starfs­manna, prent­un og fleira.

Neytendur geti orðið fyrir réttarspjöllum

Í stað póstsendinga hyggst ríkið jafnframt notast við þjónustu island.is, sem býður upp á rafræn skilríki við auðkenningu. Slíkt telst ekki ásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna. 

„Aðeins eitt fyrirtæki í eigu einkaaðila, einkum fjármálafyrirtækja, býður upp á svokölluð rafræn skilríki samkvæmt lögum um rafrænar undirskriftir. Að mati samtakanna er það með öllu óréttmætt að þvinga neytendur í viðskipti við einkafyrirtæki í einokunarstöðu, með því að krefjast auðkenningar með rafrænum skilríkjum svo þeir geti sótt réttindi sín á grundvelli laga. Dæmi eru um að einstaklingar hafi orðið fyrir alvarlegum réttarspjöllum af þessum ástæðum,“ segir í umsögninni. 

Innlendar Fréttir